Ábúendur á Starmýri I fengu Landgræðsluverðlaunin

Guðmundur Eiríksson og Sigrún Snorradóttir, bændur á Starmýri I í Álftafirði, hluti Landgræðsluverðlaunin þegar þau voru afhent fyrir skemmstu. Þau hafa ræktað upp mela á svæðinu í yfir tuttugu ár.

Sigrún og Guðmundur hófu búskap á jörðinni árið 1983 og reka þar sauðfjárbú með um 600 vetrarfóðruðum ám.

Árið 1995 þá tóku bændur á Starmýrarbæjum sig saman og hófu í félagi uppgræðslu mela með kerfisbundnum hætti undir merkjum verkefnisins Bændur græða landið.

Það uppgræðslustarf hefur haldist nær óslitið síðan þó að hin síðari ár hafi aðstæður breyst á nágrannabæjum og verkefnin einskorðast við elju og áhuga þeirra hjóna á Starmýri I, að því er fram kemur í umsögn með verðlaununum.

Mest er um uppgræðslu á víðáttumiklum melum, þar sem mikið er af lausu efni, að uppistöðu úr líparíti, en einnig hefur verið lögð áhersla á að græða upp rofdíla og rofabörð. Mest hefur verið notaður tilbúinn áburður, oft með fræi, en auk þess hafa þau lagt melunum til talsvert magn lífræns áburðar.

Mörg árin hefur allt tað sem til fellur á búinu verið notað til uppgræðslu erfiðustu melanna. Starfið ber allt merki mikillar natni, umhyggju fyrir landinu og metnaði í uppgræðslustarfinu.

Nú hafa allstór svæði á Starmýri verið grædd upp, svo eftir er tekið. Frumkvæði bænda á Starmýri I hefur verið hvatning til annarra landeigenda á svæðinu. Þau hjónin hafa rutt brautina fyrir eftirtektarverðan árangur í landgræðslu í sinni heimasveit.

Að auki fékk Hrunamannahreppur og Ólafur Arnalds, doktor í jarðvegsfræðum, verðlaunin. Verðlaunagripurinn, Fjöregg Landgræðslunnar, er unninn af Eik listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði. Verðlaunin voru afhent af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra og Árna Bragasyni, landgræðslustjóra.

Eiríkur, sonur hjónanna á Starmýri I, tók við verðlaununum fyrir þeirra hönd. Mynd: Landgræðslan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar