Á-listinn býður ekki fram: Gamli kjarninn orðinn þreyttur

Á-listi áhugafólks um sveitarstjórnarmál býður ekki fram á Fljótsdalshéraði í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Fráfarandi oddviti framboðsins segir að ekki hafi gengið að endurnýja framboðslistann.

„Fyrst og síðast er ástæðan að menn voru ekki tilbúnir að manna listann. Við höfðum fólk en kannski ekki í efstu sætin og gamli kjarninn var orðinn þreyttur,“ segir Gunnar Jónsson sem leitt hefur listann í síðustu tveimur bæjarstjórnarkosningum.

Stjórn listans sendi í morgun frá sér tilkynningu um að hann myndi ekki bjóða fram í kosningunum í vor. Í tilkynningunni er þakkað fyrir farsælt samstarf undanfarin ár og nýjum sveitarstjórnarfulltrúum óskað velfarnaðar á komandi kjörtímabili.

Í samtali við Austurfrétt sagði Gunnar að sátt og samstaða væri um niðurstöðuna innan listans þótt meiningarmunur hafi verið. Ekki hafi verið málefnaágreiningur og ánægja með störf listans í gegnum tíðina.

Ákvörðunin hafi hins vegar legið í loftinu í nokkurn tíma. „Það er látlaust verið að spyrja okkur og okkur fannst hreinlegast að þessi yfirlýsing kæmi út. Einn frá okkur var kominn á annan lista eftir að ákvörðunin var tekin.

Okkur finnst rétt að tilkynna ákveða þetta í tíma ef einhverjir vilja koma sér fyrir á öðrum listum. Það er sama hvar í flokki gott fólk er, ef það kemur fram og er tilbúið að starfa í sveitarstjórn.“

Gunnar segir að nokkuð hafi verið leitað að fólki til að manna listann, einkum seinni hluta vetrar, en þær þreifingar ekki borið árangur.

Á vefnum Kosningasaga kemur fram að Á-listinn hafi fyrst boðið fram á Héraði í kjölfar sameiningar 2004 og komið þá inn einum bæjarfulltrúa. Tveimur árum síðar fékk framboðið tvo fulltrúa kjörna og var Gunnar annar þeirra. Sá fulltrúafjöldi hefur haldist.

Listinn hefur verið í meirihluta frá 2010 og Gunnar formaður bæjarráðs þann tíma. Framboðið bætti við sig fylgi og fékk næst flest atkvæði í síðustu kosningum. Gunnar var þá kjörinn í bæjarstjórn fyrir hönd listans ásamt Sigrúnu Harðardóttur. Hún hætti á kjörtímabilinu og sæti hennar tók Þórður Mar Þorsteinsson.

Á-listinn er í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðisflokki og Héraðslistanum. Á laugardag verður tekin ákvörðun um framboð Héraðslistans en stjórn hans lagði til við aðalfund að ekki yrði boði fram því ekki hefðu komið fram frambjóðendur sem vildu taka sæti í bæjarstjórn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar