Á ekki að vera kvöð fyrir fólk með heilbrigðismenntun að fara út á land

Endurskoða á menntun íslensks heilbrigðisstarfsfólks þannig að hún henti séríslenskum aðstæðum samkvæmt nýsamþykktri heilbrigðisstefnu. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands segir að hvetja þurfi fólk strax í námi til þess að kjósa síðar meir að starfa á landsbyggðinni.

„Skipulag náms í Háskóla Íslands hefur að mínu viti verið sérfræðiþjónustumiðað. Það sést þegar fólk fer í verknám að þá fer það inn á sérgreinastöðvar.

Spurningin er hvernig innréttarðu ungan, efnilega nema þegar hann fer í gegnum svona ferli? Það þarf að útsetja nemendur í heilbrigðisvísindum meira fyrri að vera úti á landi, að það sé ekki kvöð að búa þar heldur fínt.

Skortur á fagfólki er áskorun sem ekki er hægt að horfa framhjá. Við verðum að geta mannað starfsemina til að geta haldið uppi þjónustu,“ sagði Guðjón Hauksson, forstjóri HSA í umræðum um heilbrigðisstefnuna á opnum fundi sem boðað var til á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

Heilbrigðisstefna mikilvægt framlag til byggðamála

Boðað var til fundarins að undirlagi heilbrigðisráðuneytisins og var megin markmið hans að kynna og ræða heilbrigðisstefnu til 2030 sem Alþingi samþykkti í byrjun júní. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði að horft hefði verið á stefnuna með byggðagleraugun.

„Grunnþjónusta í heimabyggð er forsenda þess að við getum iðkað einhverja uppbyggingu dreifðra byggða. Það er til lítils að tala um byggðastefnu ef við höfum ekki samgöngur, menntun eða helbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónusta með byggðargleraugun á nefinu er mögulega mikilvægasta framlagið til byggðastefnunnar,“ sagði Svandís.

Sérgrein að vera landsbyggðarlæknir?

Mönnum heilbrigðisþjónustunnar á dreifbýlum svæðum er eitt af því sem horft er til í stefnunni enda „til lítils að byggja upp ef ekki er starfsfólks,“ eins og Svandís orðaði það. Austurland hefur glímt við læknaskort síðustu ár og staðan er þannig víðar á landsbyggðinni, auk þess sem fleiri stéttir hefur vantað.

„Þetta er risastórt byggðamál. Við þurfum að fjölga læknum. Ég hef verði hugsi yfir menntun lækna, það virðist innbyggður hvati í því til að þjappa læknum á höfuðborgarsvæðið. Við þurfum að auka verknám úti á landi og endurskoða áherslu á að mennta lækna til stafa á hátæknisjúkrahúsum þegar við erum sammála um að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður,“ sagði Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði í pallborðsumræðum.

„Við þurfum að leggja þarf meiri áherslu á heilsugæslulækningar strax í grunnnáminu, að fjölga sérnámsstöðum heilsugæslulækna. Við þurfum líka að horfa til þess að það sé sérstök sérgrein að vera landsbyggðarlæknir því viðkomandi getur þurft að sinna þjónustu án þess að hafa bakland nærri sér,“ sagði Svandís og bætti við að Læknafélag Íslands hefði tekið undir þetta sjónarmið.

Hún kom einnig inn á að skilgreina yrði mismunandi þjónustustig og efla teymisvinnu bæði ólíkra heilbrigðisstétta og annarrar stoðþjónustu, svo sem félagsþjónustu sveitarfélaga, til að hægt sé að veita þjónustuna þar sem hennar er þörf.

Byggja þarf upp bakland fyrir starfsfólk í dreifbýli

Elsa B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri heilbrigðismála í velferðarráðuneytinu, benti á að nýir siðir fylgdu nýjum kynslóðum heilbrigðisstarfsfólks sem væri hræddara en áður við að vinna í einmenningsumdæmum.

„Það er mikill munur á hve þolnir læknar eru til dæmis og stór hluti starfsfólks vill ekki taka vaktir. Á þessu eru að verða breytingar. Fólk er hrætt við að standa eitt og þurfa að sinna alls konar áföllum. Við þurfum því að finna leiðir til að manna dreifbýlið. Í heilbrigðisstefnunni er komið inn á skyldur Landsspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri við aðrar sjúkrastofnanir um að vera bakland fyrir þá sem starfa í dreifbýli og veitt sé ráðgjöf í gegnum síma eða fjarfundabúnað.“

Ekkert húsnæði þegar loks fæst starfsfólk

En það er fleira sem hindrar heilbrigðisstarfsfólk í að velja sér að starfa á landsbyggðinni. Húsnæðismál komu til umræðu á fundinum.  „Ríkiseignir eiga húsnæði sem HSA notar og svo leigjum við. Við finnum gjarnan að við höfum ekkert húsnæði þegar við fáum fólk. Það er þreytandi staða að auglýsa eftir leiguhúsnæði, sem stundum er ekki viðunandi. Fyrir nokkrum árum var gerð úttekt á HSA og meðal þeirra tillagna sem þar voru settar fram var að byggja íbúðarhúsnæði á Egilsstöðum og í Neskaupstað því raunin er að við fáum fólk í skemmri tíma og það er erfitt að finna húsnæði,“ sagði Guðjón.

Svandís sagði að ekki væri tekið sérstaklega á húsnæði fyrir starfsfólk í stefnunni en stjórnvöld væru meðvituð um vandann og unnið væri að lausnum í húsnæðisverkefnum félagsmálaráðuneytisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.