Jens Garðar: Erindi Smyril Line kom okkur virkilega á óvart

jens gardar helgason mai12Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, segir ósk Smyril Line um viðræður um að Fjarðabyggðarhafnir verði áfangastaður ferjunnar Norrænu í framtíðinni hafa komið virkilega á óvart. Engin áform hafi verið uppi um að byggja upp ferjuhöfn í sveitarfélaginu.

„Þetta bréf barst hafnarstjórn Fjarðabyggðar og kom okkur virkilega á óvart," sagði Jens Garðar í samtali við Austurfrétt í dag.

Jens segir fulltrúa fyrirtækisins fyrst hafa hringt og spurst fyrir um í hvaða ferli svona mál færu og þeim verið bent á að senda inn erindi.

„Þeir óska eftir viðræðum og við verðum að svara bréfum sem koma til okkar. Það er óskað eftir fundi og við verðum við því.

Við munum hlusta á hvað þeir eru að hugsa með framhaldið. Við vitum ekkert meir."

Á fundi hafnarstjórnar í gær, þar sem erindið var tekið fyrir, var samþykkt að hafnarstjóri og formaður hafnarnefndar sætu fund með forráðamönnum Smyril Line. Bæjarstjórinn verður þar einnig og mögulega Jens Garðar.

Aðstaða fyrir bíla- og farþegaflutningaferju eins og Norrænu er ekki til staðar í Fjarðabyggð í dag og Jens Garðar segir það aldrei hafa verið stefnu sveitarfélagsins að byggja upp þá aðstöðu sem til þarf.

„Fjarðabyggð hefur eins og önnur sveitarfélög á Austurlandi alltaf litið á Seyðisfjörð sem heimahöfn Norrænu.

Við höfum tekið við skemmtiferðaskipum á Eskifirði og það hefur verið vitað í sex ár að það væri stefna Fjarðabyggðar að taka þátt í að stækka skemmtiferðaskipakökuna á Austurlandi.

Ferjuhöfn hefur aldrei verið á teikniborðinu og við höfum ekki sóst eftir viðræðum um Norrænu. Þetta er ekki að okkar frumkvæði."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.