Framkvæmdastjóri Smyril Line: Þetta eru fyrst og fremst könnunarviðræður

„Þetta er fyrst og fremst upplýsingaöflun. Við viljum kanna hverjir möguleikarnir eru,“ sagði Rúni V. Poulsen, framkvæmdastjóri Smyril Line í samtali við Austurfrétt.
Austurfrétt greindi frá því fyrr í dag að fyrirtækið hefði sent Fjarðabyggð bréf með ósk um viðræður um hvort mögulegt væri að sigla ferjunni þangað.
Í bréfinu segir að vaxandi þrýstingur sé á fyrirtækið að flytja farþega yfir vetrartímann og þar sé Fjarðarheiðin milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs þröskuldur.
„Við reynum alltaf að þróa fyrirtækið. Það er uppselt með ferjunni á sumrin en við viljum þróa það á öðrum tímum. Þar siglum við í strand uppi á heiði.“
Engar ákvarðanir hafi verið teknar enn, til dæmis hvort til greina komi að sigla ferjunni annað á veturna heldur en á sumrin.
„Það hefur ekkert verið ákveðið enn. Í þessu samhengi erum við fyrst og fremst að horfa á vetrarferðirnar,“ sagði Rúni.
„Við vitum að það er engin aðstaða á Eskifirði eða Reyðarfirði í dag til að taka á móti ferju eins og Norrænu. Við viljum vita hvort hafnaryfirvöld í Fjarðabyggð vilji ræða við okkur þannig að við getum þróað betri vöru.“
Aðspurður sagðist hann ekki hafa heyrt í bæjaryfirvöldum á Seyðisfirði síðustu daga. „Þetta er fyrst og fremst upplýsingaöflun. Okkur finnst okkur bera skylda til að nýta þá möguleika sem eru fyrir hendi.“