Orkumálinn 2024

Framkvæmdastjóri Smyril Line: Þetta eru fyrst og fremst könnunarviðræður

Runi V Poulsen webFramkvæmdastjóri Smyril Line - International segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort heimahöfn Norrænu verði flutt frá Seyðisfirði til Fjarðabyggðar. Þær viðræður sem fyrirtækið hafi óskað eftir við Fjarðabyggð séu fyrst og fremst ætlaðar til að kanna hvaða þjónustu sé þar að fá.

„Þetta er fyrst og fremst upplýsingaöflun. Við viljum kanna hverjir möguleikarnir eru,“ sagði Rúni V. Poulsen, framkvæmdastjóri Smyril Line í samtali við Austurfrétt.

Austurfrétt greindi frá því fyrr í dag að fyrirtækið hefði sent Fjarðabyggð bréf með ósk um viðræður um hvort mögulegt væri að sigla ferjunni þangað.

Í bréfinu segir að vaxandi þrýstingur sé á fyrirtækið að flytja farþega yfir vetrartímann og þar sé Fjarðarheiðin milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs þröskuldur.

„Við reynum alltaf að þróa fyrirtækið. Það er uppselt með ferjunni á sumrin en við viljum þróa það á öðrum tímum. Þar siglum við í strand uppi á heiði.“

Engar ákvarðanir hafi verið teknar enn, til dæmis hvort til greina komi að sigla ferjunni annað á veturna heldur en á sumrin.

„Það hefur ekkert verið ákveðið enn. Í þessu samhengi erum við fyrst og fremst að horfa á vetrarferðirnar,“ sagði Rúni.

„Við vitum að það er engin aðstaða á Eskifirði eða Reyðarfirði í dag til að taka á móti ferju eins og Norrænu. Við viljum vita hvort hafnaryfirvöld í Fjarðabyggð vilji ræða við okkur þannig að við getum þróað betri vöru.“

Aðspurður sagðist hann ekki hafa heyrt í bæjaryfirvöldum á Seyðisfirði síðustu daga. „Þetta er fyrst og fremst upplýsingaöflun. Okkur finnst okkur bera skylda til að nýta þá möguleika sem eru fyrir hendi.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.