Auðlindin Austurland: Atvinnumálaráðstefna í nóvember

sjomadur fundurDagana 5. – 6. nóvember nk. stendur Austurbrú fyrir atvinnumálaráðstefnu undir yfirskriftinni „Auðlindin Austurland“ á Hóteli Hallormsstað. Boðið verður upp á fjölda fyrirlestra, málstofa og tengslatorg. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra mun setja ráðstefnuna en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun einnig flytja erindi um tækifæri á Norðurslóðum. 

Samgöngumál til framtíðar, ósnert víðerni, umskipunarhöfn í Finnafirði, hæglæti sem lífsmáti, þjónusta við olíuleit, álhönnun, listalýðháskóli, hátækni í fiskiðnaði, sjálfbærni, staðbundin menning, háskólarannsóknir og fleira. Þessi umfjöllunarefni og mörg fleiri verða í brenndepli á atvinnuráðstefnu sem Austurbrú stendur fyrir í byrjun nóvember. Horft verður til framtíðar og farið yfir þau gríðarlegu tækifæri sem fjórðungurinn hefur upp á að bjóða.

Austurland hefur alla burði til að vera í fararbroddi á komandi árum sem umhverfisvænt og sjálfbært landssvæði með fjölbreyttum atvinnumöguleikum og miklum lífsgæðum.

Verðmætasköpun á Austurlandi hefur vaxið meira en á flestum öðrum landssvæðum á undanförnum árum. Austurland er með hæsta hlutfall íbúa á aldrinum 18-66 ára eða 65,5% sem er það sama og á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúar svæðisins eru því fremur ungir og eru flestir á vinnualdri sem gerir það að verkum að mögulegir skattgreiðendur eru tiltölulega margir. Atvinnuleysi á Austursvæði er talsvert undir landsmeðaltali og einungis lægra á Vestfjörðum og Norðvestursvæði.

Fyrirlesarar munu fara vítt og breitt í umræðu um „Auðlindina Austurland“ en einnig verður boðið upp á vinnustofur í tengslum við ráðstefnuna þar sem áhugasömum gefst tækifæri til að taka þátt í gagnlegum námskeiðum og vinnuhópum.

Á vefnum traveleast.is má skoða dagskrá ráðstefnunnar auk upplýsinga um vinnustofur sem fram fara 4. og 7. nóvember.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.