90% samdráttur í flugi til Egilsstaða

Fjöldi farþega sem fór um Egilsstaðaflugvöll í aprílmánuði var aðeins rétt rúm 10% af þeim fjölda sem fór um völlinn á sama tíma í fyrra. Mikil samdráttur er í flugi út af Covid-19 faraldrinum.

Þetta kemur glöggt fram í mánaðartölum Isavia, en félagið birti í dag tölur um flugumferð í aprílmánuði.

Um Egilsstaðaflugvöll fór 731 farþegi, um 11% þeirra sem fóru um völlinn á sama tíma í fyrra. Ferðum fækkaði einnig verulega, voru 272 í fyrra en voru 92 nú, eða þriðjungur af því sem áður var. Minnstur samdráttur var í farmflutningi, 43%.

Fækkun farþega á Egilsstöðum er svipuð hlutfallslega og á öðrum flugvöllum sem þjóna innanlandsflugi. Fjöldi farþega á Keflavíkurflugvelli var aðeins 1% í apríl af því sem hann var fyrir ári.

Þótt Covid-19 faraldurinn hafi sett flug úr skorðum um allan heim þá var samdráttur farþega á Egilsstaðaflugvelli einnig áður en hann skall á af fullum þunga. Í janúar og febrúar var hann um 10% milli ára en í mars fóru um hann tæplega helmingi færri farþegar en í fyrra.

Þegar fyrstu fjórir mánuðir árananna eru bornir saman kemur í ljós að fækkun farþega á Egilsstöðum er tæp 40%, ferðum fækkar um þriðjung og farmur minnkar um fimmtung.

Samdrátturinn á Egilsstöðum er heldur minni en á Akureyri en hins vegar áþekkur því sem hann er á öðrum innanlandsflugvöllum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.