Hlunnindi.is: Helmingur leyfanna seldur á fyrsta sólarhringnum

hlunnindi gardar siggi 0001 webUm helmingur þeirra veiðileyfa sem í boði eru á vefnum hlunnindi.is hefur verið seldur síðan sala á leyfunum hófst í gærkvöldi. Aðstandendur vefsins segja tilganginn með honum að byggja upp vef landaupplýsingum fyrir veiði á einum stað.

„Mest seldist á fyrsta klukkutímanum. Það er setið um ákveðnar jarðir og oft eru þetta sömu veiðimennirnir ár eftir ár,“ segir Garðar Valur Hallfreðsson, forritari.

Í ár er heimilt að veiða rjúpu í tólf daga. Þeir dreifast yfir fjórar helgar frá föstudeginum 25. október til sunnudagsins 17. nóvember. „Við erum með tvær jarðir fyrir norðan á vefnum sem eru mjög vinsælar. Á aðra þeirra seldist upp á hálftíma,“ segir Sigurður Behrend sem forritar vefinn með Garðari fyrir hönd Austurnets.

Hægt er að kaupa veiðileyfi á ellefu jarðir í gegnum vefinn. Flestar þeirra eru á Austurlandi en sem fyrr segir tvær á Norðurlandi og ein á Suðurlandi. Garðar og Sigurður segja vefinn geta hjálpað landeigendum til að hafa yfirsýn yfir veiði á landi þeirra en aðeins er takmarkaður fjöldi leyfa til sölu á hverri jörð sem ræðst af stærð þeirra.

Þeir segja markmiðið ekki eingöngu að selja rjúpnaveiðileyfi. Hlunnindavefurinn haldi fyrst og fremst utan um landfræðiupplýsingar og því sé hægt að breyta kerfinu til að selja gæsaveiðileyfi eða jafnvel svæði til berjatínslu.

„Pælingin er að einfalda aðgengi að upplýsingum um jarðir,“ segir Sigurður og bendir á að fyrir nýja veiðimenn geti verið erfitt að læra hvernig veiðijarðir liggi.

Í vefkerfinu er kort  þar sem hægt er á einfaldan hátt að merkja svæði til að veiða á en einnig svæði þar sem ekki má veiða. „Við viljum búa til gagnagrunn með landupplýsingum fyrir veiði á gagnsæjan hátt á einum stað,“ bætir Garðar við.

Enn er hægt að skrá jarðir á vefinn fyrir komandi rjúpnaveiðitímabil en Garðar og Sigurður veita aðstoð við alla vinnslu upplýsinga á vefinn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.