Ríflega 100 milljóna viðsnúningur á rekstri Seyðisfjarðarkaupstaðar

vilhjalmur jonsson sfk mai12Ríflega 100 milljóna viðsnúningur hefur orðið á rekstri Seyðisfjarðarkaupstaðar á undanförnum tveimur árum. Haustið 2011 var gripið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða í rekstri sveitarfélagsins eftir viðvarandi hallarekstur.

Þetta kom fram í erindi Vilhjálms Jónssonar, bæjarstjóra, sem haldið var á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í morgun. Árin 2010 og 2011 var tæplega 72ja milljóna króna tap á rekstri Seyðisfjarðarkaupstaðar en hagnaður upp á 36 milljónir í fyrra. Uppsafnaður halli áranna 2002-2010 voru tæpar 640 milljónir króna.

Fjárhagsáætlun ársins 2010 gerði ráð fyrir 42ja milljóna krónum í veltufé frá rekstri en það var neikvætt um 1,2 milljónir. Árið 2012 var það jákvætt um 142 milljónir króna.

Íbúarnir fylgja þorskinum

Miklar breytingar urðu á bænum og atvinnulífi hans á tíunda áratug síðustu aldar. Sjávarútvegsfyrirtæki hættu rekstri sem leiddi til samdráttar hjá fyrirtækjum sem þjónustu iðnaðinn. „Ætla má að störfum hafi fækkað um a.m.k. 130. Þar á meðal mörgum störfum fyrir iðnmenntaða starfsmenn sem löng hefð var fyrir á Seyðisfirði,“ sagði Vilhjálmur.

Hann sýndi meðal annars graf um hvernig fækkun íbúa, úr 981 árið 1990 í 800 árið 200 niður í 669 árið 2010 hélst í hendur við þróun aflaheimildir skipa, með heimahöfn á Seyðisfirði, í þorski.

Vont milliuppgjör 2011

Það var um mitt ár 2011 sem af festu var gripið í taumanna. Í áætlun fyrir árið var gert ráð fyrri töluverðum viðsnúningi en milliuppgjör sýndi mikinn hallarekstur og ljóst að í „talsverða framúrkeyrslu“ stefndi á ýmsum sviðum.

„Nokkurrar þreytu gætti hjá lánadrottnum vegna erfiðleika kaupstaðarins við að standa í skilum og endurteknum skammtímalausnum vegna þess,“ segir í erindi Vilhjálms. Á fyrri helmingi ársins 2011 gjaldféllu afborganir lána fyrir um fimmtíu milljónir króna.

Breytt vinna við gerð áætlana

Þar segir að strax hafi verið dregið úr útgjöldum en jafnframt samþykkti bæjarstjórn að láta gera úttekt á stöðu, rekstri, skipulagi og starfsemi kaupstaðarins. Niðurstöður hennar og aðgerðir voru kynntar fyrir bæjarbúum um haustið.

Undirbúningur við vinnu fjárhagsáætlana hefur breyst verulega. Hann hefst strax á fyrri hluta ársins. Af hálfu bæjarstjórnar er unnið að aukinni samvinnu, meðal annars við forstöðumenn stofnana bæjarins. Hlutverk þeirra og eftirfylgni með áætlunum hefur verið skýrt með skriflegum reglum. Um leið hefur verið skýrt hvernig fjárheimildir eru fluttar innan áætlunar.

Tekjur auknar og gjöld lækkuð

Fyrir árið 2012 voru fasteigna- og þjónustugjöld hækkuð og skilar það um 20 milljónum króna meira í bæjarsjóð á ári. Þá var gripið til umfangsmikilla sparnaðaraðgerða. Stöðugildum var fækkað strax á bæjarskrifstofu, í skóla og áhaldahúsi, yfirvinna takmörkuð, fastlaunasamningar endurskoðaðir, sumarvinna takmörkuð og ekki alltaf ráðið í stað þeirra sem hættu. Markmiðið var að skera launaliði niður um 40-45 milljónir króna.

Einnig var sparað í kaupum á vöru og þjónustu. Samningar við birgja voru endurskoðaðir, viðhaldi og framkvæmdum frestað, hagrætt í þjónustu, orkunotkun skráð og reynt að draga úr henni. Í þessum lið var stefnt að 18-20 milljóna sparnaði. Allan tíman var miðað við að verja þjónustu í boði kaupstaðarins.

Lækkun skulda langtímamarkmiðið

Áfram verður haldið að meta stöðuna og vinna að frekari hagræðingu í rekstri. Langtímamarkmiðið er að vinna á skuldum en í árslok 2010 voru þær 1,4 milljarður króna. Markmiði sveitarstjórnalaga um að skuldahlutfall sé ekki meira en 150% af tekjum ætla Seyðfirðingar ná 2016 eða 17. Hlutfallið var 217% árið 2010.

„Viðmiðin eru mikilvæg og það þarf að fylgja þeim eftir til að treysta fjárhag kaupstaðarins,“ sagði Vilhjálmur að lokum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.