„Við erum að tala um 92 hnífsstungur sem veittar voru með miklu ofbeldi“

bonusblokk 06052013 0052 webBanamein Karls Jónssonar, sem myrtur var á heimili sínu á Egilsstöðum í byrjun maí, var mikill blóðmissir. Áverkarnir voru veittir af miklu afli. Meintur gerandi var ofurölvi kvöldið sem morðið var framið.

„Fórnarlambið andaðist í kjölfar mikils blóðmissis, aðallega út í brjóstholið eftir að op var komið á hjartahvolfið,“ sagði þýski réttarmeinafræðingurinn Uwe Wiesbrock við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Austurlands í dag.

Fyrri hluti aðalmeðferðarinnar fór fram í ágúst en var frestað þar sem framburður réttarmeinafræðingsins, sem þá var gefinn í gegnum síma á ensku, fór fyrir ofan garð og neðan. Uwe mætti í eigin persónu í dag í dómssal í héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði og gaf skýrslu á móðurmáli sínu með aðstoð löggilts dómtúlks á þýsku.

Banameinið tvö stungusár í hjartastað

Niðurstaða hans er að tvö stungusár í brjósthol hafi orðið Karli að bana. Líklegt að Karl hafi misst meðvitund á 10-30 sekúndum eftir að honum voru veittir áverkarnir.

Verjandi spurði hvort mögulegt hefði verið að Karl hefði veitt sér áverkana sjálfur en það útilokaði Uwe. „Hann hefði getað stungið sig einu sinni með báðum höndum en ekki tvisvar.“

Talið er að Karli hafi verið ráðinn bani inni í stofunni í íbúð hans í Blómvangi á Egilsstöðum en hann síðan dreginn meðvitundarlaus út á svalirnar. Athygli hefur vakið að nær engar blóðslettur voru inni í stofunni.

Mikill ofsi og ofbeldi

Uwe sagði í dag að blóð hefði ekki þurft að „frussast“ úr sárinu á brjóstinu. Sárið liggi þannig að blóðið fari út í brjóstholið. Sé fórnarlambið á maganum komi líklega blóð úr sárinu en það geti tekið tíma.

Karl var að auki með sár á höndum og lærum, sem líklega fylgdu í kjölfar stungnanna í brjóstholið áður en hann missti meðvitund. Síðast voru honum veitt áverkar á höfði.

Ekki blæddi úr öllum þeirra sem bendir til þess að blóðrás hafi ekki lengur verið virk þegar þeir áverkar voru veittir. Mögulegt er að þeir áverkar hafi verið veittir klukkustundum eftir andlátið.

„Við erum að tala um alls 92 hnífsstungur sem veittar voru með miklum ofsa og ofbeldi,“ sagði Uwe. Fyrstu stungurnar fóru í gegnum brjóstbeinið en til þess þarf „mikið afl“

Tvö brot úr morðvopninu fundust í höfði hins látna. Ljóst er að gerandinn hefur haldið áfram að beita hnífnum eftir að hann brotnaði.

Blóðslóðin órofin út á svalir

Uwe tók undir með þeim íslensku blóðferlasérfræðingum sem við fyrri hluta aðalmeðferðarinnar sögðu nær útilokað annað en Karl hefði verið dreginn beint úr stofunni út á svalirnar. Við svalahurðina er blóðferillinn aðeins sterkari sem bendir til þess að töf hafi orðið á ferðinni, líklega til að lyfta líkinu yfir þröskuldinn.

Meintur gerandi, Friðrik Brynjar Friðriksson, hefur neitað því að hafa dregið Karl út á svalirnar. Hann hafi komið að honum liggjandi þar og mögulega dregið hann aðeins til. Allir þeir sérfræðingar sem komið hafa fyrir dóminn hafa dregið þá sögu verulega í efa.

Í blóðslóðinni fundust einnig þófaför frá hundi. Uwe segir ekki slík spor myndist ekki við herbergishita sé slóðin eldri en tveggja mínútna. Ljóst er að hundur Friðriks Brynjar var með honum á ferð kvöldið örlagaríka. Ummerki um blóð fundust þó ekki þegar eftir þeim var leitað á fótum hundsins.

Aðspurður sagði meinafræðingurinn að hefði gerandinn verið í peysu hefði átt að finnast blóð fremst í erminni hafi hún legið fram á úlnlið. Ekkert blóð hefur fundist í þeim yfirhöfnum sem Friðrik Brynjar á að hafa klæðst þetta kvöld.

Blóðblettir í buxnaskálm ekki kám

Blóð úr Karli og Friðriki sjálfum fannst hins vegar í buxum og sokkum sem lögregla haldlagði heima hjá Friðriki morguninn eftir verknaðinn. Við lok fyrri aðalmeðferðarinnar fór saksóknari fram á að fá að leggja fram DNA greiningu á blettum sem ekki höfðu áður verið rannsakaðir.

Sex blettir voru rannsakaðir í viðbót, fjórir þeirra voru úr Karli en tveir úr Friðriki Brynjari. Blóð úr Karli fannst á hægri buxnaskálm og sagði sérfræðingur lögreglunnar, sem bar vitni í dag, þá þekka að gerð og bletti sem voru á svölum íbúðarinnar. Þetta væru ekki kámblettir.

Þá fannst blóð í sýni úr vatnslási úr vaski á baðherbergi íbúðar Karls sem sérfræðingar höfðu ekki átt von á að fyndist. Fyrir dómi í dag kom fram að ólíklegt væri að vaskurinn hefði verið notaður eftir að blóðið kom í lásinn.

Friðrik Brynjar var með áfengiseitrun

Í vitnisburði eiturefnasérfræðings í dag kom fram að áfengismagn í blóði Friðriks Brynjars hefði verið yfir þremur prómillum að kvöldi hins sjötta maí. Það er skilgreint sem áfengiseitrun.

Þá gaf sambýliskona Friðriks Brynjars skýrslu fyrir dóminum í dag. Dómari skýrði henni frá því að henni bæri ekki skylda til að bera vitni vegna náinna tengsla við hinn ákærða. „Ég kýs að tjá mig,“ svaraði hún.

Hún sagði að hún og Friðrik Brynjar hefðu verið í heimsókn hjá vinnufélaga hans fyrr um kvöldið en farið eftir að hundur vinnufélagans beit Friðrik í fingurinn. Þau hefðu leitað á heilsugæslustöð vegna þess.

Friðrik var nokkuð drukkinn þegar heim var kominn en hann fór þá út með hund þeirra. Hún hefði ekki orðið við hann eftir það í um einn og hálfan tíma.

Hún hefði rankað við sér þegar lögreglan hefði bankað upp á og verið að leita að Friðriki Brynjari. Hann hefði fundist fljótt og komið inn en þá verið orðinn „mjög fullur“ og talað „asnalega“ þannig að erfitt hafi verið að skilja hann. Hann hefði samt verið „alveg rólegur,“ klætt sig úr fötunum og farið upp í rúm að sofa.

Hún lýsti þeim fötum sem Friðrik Brynjar var í um kvöldið og staðfesti að hann hefði verið í sömu fötum þegar hann kom heim og þegar hann fór út.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.