Þóroddur Bjarnason: Höfum skapað vandræði með því að tala um landsbyggðina í eintölu

thoroddur bjarnason ssa13Ákveðin svæði á landsbyggðinni eru í blússandi sókn á meðan önnur berjast fyrir tilverurétti sínum. Á Íslandi skortir skýra byggðastefnu þar sem tekið er af alvöru á vanda þeirra byggða sem eru í vanda.

„Við höfum skapað vandræði með því að tala um landsbyggðina í eintölu. Við höfum því ekki fókuserað nóg á þau svæði sem eru í vanda,“ sagði Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri og stjórnarformaður Byggðastofnunar, í erindi sem hann hélt á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fyrir skemmstu.

Þetta leiddi til dæmis til þess að stjórnvöld flyttu starfsemi út á land á svæði þar sem ríkti „blússandi uppgangur“ og þyrftu ekki á hinni sértæku aðstoð að halda.

Þóroddur sagði landsbyggðina almennt standa sterkum fótum og vera í sókn. Hann tiltók hins vegar þrjú landssvæði: suðausturhornið, norðausturhornið og Vestfirði sem séu í virkilegum vanda. „Við þurfum sértækar aðgerðir ef mið-Austurland á að blómstra áfram.“

„Íslensk byggðastefna hefur snúist um að byggja upp alvöru borg og við erum enn föst í því að byggja upp einhvers konar borgríki með hnignandi krúttlegu byggðunum í kring. Nú þurfum viðað fara að hugsa næsta skref.“

Hann ræddi einnig sérstaklega fólksfækkun í sveitum sem væri gegnumgangandi yfir landið. „Það er augljóst að við verðum að velta fyrir okkur hvar við ætlum að ná botninum. Það er engin skýr byggðastefna um sveitir til. Það þarf ekki bara að ræða hvernig við viljum sjá landbúnaðinn sem iðnað heldur sveitirnar sem samfélög.“

Þóroddur fór sérstaklega yfir samgöngumál en mat hans er að fáar framkvæmdir myndu skila jafn miklu til baka og að tengja mið-Austurland saman með jarðgöngum.

„Allt mið-Austurlega yrði samgöngulega séð eins og Reykjanesið. Mestu fjarlægðir á Austurlandi yrðu eins og frá Hvolsvelli í Borgarnes. Það er erfitt að benda á önnur svæði á landinu þar sem fengist jafn mikið fyrir peningana.“

Hann gagnrýndi nýja samgönguáætlun þar sem sé ekki lengur skilgreindur hámarksferðatími til Reykjavíkur heldur til atvinnu og þjónustukjarna. „En hvað er byggðakjarni?“ spurði Þóroddur.

„Það hefur verið stefna að vera með samgöngumálaráðherra úr mismunandi kjördæmum og byggja þannig upp vegakerfið. Það hefur virkað en er ekki sniðugt.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.