Bættur búnaður á fæðingadeild FSN: Soroptimistar gefa nýjan hjartasírita

soroptimistar gjof fsaÍ liðinni viku komu fulltrúar Soroptimistaklúbbs Austurlands færandi hendi á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Klúbburinn gaf fæðingadeild sjúkrahússins hjartasírita en tilefnið var 10 ára afmæli klúbbsins.
Síritinn er notaður fyrir og í fæðingu til að fylgjast með hjartslætti barns og tíðni samdrátta hjá móður. Þessi síriti mælir einnig hjartslátt tvíbura og móður. Hann býður ennfremur upp á þann möguleika að hafa þráðlausa stöð sem myndi gera konum kleift að hreyfa sig á meðan á fæðingu stendur og yrði því til stóraukinna þæginda fyrir konur í fæðingu.

Tækið kemur til með að auka öryggi í þjónustu fæðingadeildarinnar enda var sá búnaður sem fæðingadeildin átti fyrir úreldur. Fæðingadeild FSN í Neskaupsstað er eina fæðingadeild á Austurlandi og með gjöfinni vilja Soroptimistar bæta aðstöðu kvenna til fæðinga á svæðinu.

Soroptimistaklúbbur Austurlands var stofnaður í september árið 2003 af konum á Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði og Borgarfirði eystra. Klúbburinn er hluti af alþjóðasamtökum Soroptimista fyrir konur í stjórnum og öðrum sérhæfðum störfum.

Soroptimistasamtökin stuðla að heimsmynd þar sem framlag kvenna og stúlkna nær fram því besta sem völ er á og jafnframt skapa tækifæri til að breyta lífi kvenna og stúlkna. Þær hvetja til jafnræðis og jafnréttis, vinna að öruggu og heilsusamlegu umhverfi, auka aðgengi að menntun, efla leiðtogahæfni og hagnýta þekkingu til sjálfbærrar framtíðar.

Hreyfingin er alþjóðleg en alls eru Soroptimistar um 95.000 og starfa í 3000 klúbbum í 120 löndum um allan heim.

Lukka Sigríður Gissurardóttir SA, Oddný Ösp Gísladóttir ljósmóðir FSN, Jónína Salný Guðmundsdóttir ljósmóðir FSA og María Ósk Kristmundsdóttir SA.
Mynd: Lóa Björk Bragadóttir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.