Knúið á um úrbætur á vegslóðum í þjóðgarðinum: Illa gengur að skýra hver ber ábyrgðina

snaefellIlla hefur gengið að fá á hreint hver ber ábyrgð á viðhaldi slóða og vega á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Skortur á viðhaldi getur leitt til utanvegaaksturs og þar með landskemmda.

Í nýlegu bréfi Félags hreindýraleiðsögumanna til svæðisráðs austursvæðis jökulsins og sveitarstjóra Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs er vakin sérstaka athygli svokallaðri Sauðárkofaslóð, um kolludrag að Snæfellsskála.

Þar er bent á að slóðin sé annað árið í röð lokuð vegna viðhaldsleysis. Það auki hættu á landskemmdum því menn reyni „eðlilega að krækja framhjá ófærum drullupyttum á slóðinni.“ Skorað er á þá sem fara með fjárúthlutanir að tryggja fé til viðhalds slóðans á næsta fjárhagsári.

Málið snýst þó ekki bara um veiðarnar því slóðarnir greiða einnig götu hins almenna ferðamanns. „Eitt af markmiðunum með stofnun þjóðgarðsins var að styðja við ferðamennsku á svæðinu. Ekki verður séð með hvaða hætti lokun þessarar hringleiðar styður við ferðamennsku í þjóðgarðinum. Þessi lokun hefur áhrif á störf leiðsögumanna með hreindýraveiðum sem og annarra sem fara með ferðamenn um svæðið,“ segir í bréfinu.

Stjórn svæðisráðsins virðist meðvituð um vandamálið en í nýjustu fundargerð ráðsins frá í júní er umræddur slóði á forgangslista yfir þá sem þarf að bæta ásamt Kofaölduslóð og slóðina inn í Bergkvíslarkofa.

Þar er harmað hversu illa gangi að fá á hreint hver beri ábyrgð á slóðum og vegum innan þjóðgarðsins. „Ört vaxandi umferð ferðamanna eykur líkur á óhöppum og slysum á vegum sem óljóst er hver ber ábyrgð á og hvar skaðabótaskylda liggur. Svæðisráð hvetur stjórn þjóðgarðsins til að koma þessum málum á hreint áður en kemur til málaferla vegna slysa.“

Varað er við því að ef slóðarnir verða ekki lagaðir þurfi að loka þeim.

Yfirstjórn þjóðgarðsins hefur ekki fundað síðan erindið var sent og því ekki brugðist formlega við því enn samkvæmt fundargerðum á vef garðsins.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.