Manndráp á Egilsstöðum: „Ég veit ég gerði þetta ekki“

adamedferd 1Í morgun hófst í Héraðsdómi Austurlands aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Friðrik Brynjari Friðrikssyni en hann er ákærður fyrir manndráp af ásetningi með því að hafa ráðið Karli Jónssyni bana í íbúð þess síðarnefnda á Egilsstöðum aðfaranótt 7. maí.

Við aðalmeðferð fer fram skýrslutaka af ákærða, rannsóknaraðilum og vitnum í málinu auk þess sem saksóknari og verjandi flytja málin fyrir dómi. Við upphaf aðalmeðferðar lýsti ákærði yfir sakleysi sínu af ákærunni en viðurkenndi að hafa verið í íbúðinni um nóttina og að hafa lent í átökum við fórnarlambið.

Við skýrslutöku fyrir dómi í morgun bar ákærði að hann hafi verið búinn að drekka áfengi um kvöldið. Undir miðnætti hafi hann hafi bankað á nokkrum íbúðum í leit að áfengi og þá hafi Karl heyrt til hans og boðið honum inn til sín í bjór. Samtal þeirra hafi síðan snúist inn á brautir sem honum líkaði ekki við og á endanum hafi hann slegið Karl nokkrum sinnum og farið úr íbúðinni. Hann hafi síðan snúið aftur í íbúðina og þá komið að Karli alblóðugum á gólfinu og verið viss um að hann væri látinn.

Ákærði játaði að hafa dregið fórnarlambið, þó ekki út á svalir þar sem líkið síðan fannst, en gat ekki gefið skýringar á því athæfi sínu. Hann neitaði alfarið að hafa beitt hníf í átökum þeirra fyrr um kvöldið eða síðar. Hann kvaðst einnig hafa hringt í lögreglu þegar hann kom að Karli lífvana en hafi síðan neitað að kannast við það þegar lögregla kom á staðinn.

Í máli ákærða kom fram að lögregla hefði lagt hart að honum að játa og að mögulegt sé að hann hafi sjálfur á einhverjum tímapunkti trúað því að hann hafi framið verknaðinn en hann viti að hann hafi ekki gert það. „Ég held það sé ómögulegt að fremja svona glæp og muna ekki eftir því.“

Aðalmeðferð í málinu heldur áfram í dag og gert er ráð fyrir að henni ljúki í kvöld. Málið dæma þrír héraðsdómarar en að jafnaði er einn dómari sem dæmir í málum í héraðsdómi. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er þó heimilt að ákveða að þrír dómarar dæmi í máli, m.a. ef ákærði neitar sök og sýnt er að niðurstaða muni ráðast að miklu leyti af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.