Orkumálinn 2024

690 Vopnafjörður inn og út af Edduverðlaununum

Tilnefning heimildamyndarinnar 690 Vopnafjörður til Eddu verðlaunanna var dregin til baka eftir að listi yfir tilnefndar myndir var opinberaður. Forsvarsmenn verðlaunanna svara ekki spurningum um forsendur breytingarinnar.

Tilkynnt var um tilnefningar til Eddunnar, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna við hátíðlega athöfn síðasta fimmtudagskvöld. 690 Vopnafjörður í leikstjórn Körnu Sigurðardóttur, var tilnefnd í flokki heimildamynda ársins.

Á sunnudag var tilnefningin hins vegar dregin til baka og upplýsingum á heimasíðu Eddunnar breytt á þann hátt að í stað 690 Vopnafjarðar er komin Litla Moskva, heimildamynd um sósíalisma í Neskaupstað.

Hulda Rós Guðnadóttir, úr valnefnd Eddunnar, hefur gagnrýnt þessi vinnubrögð stjórnenda Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar (ÍKSA) sem fer með yfirstjórn verðlaunanna. Í Facebook-færslu frá í gær segist hún hafa fengið þær upplýsingar að undanþága sem 690 Vopnafjörður fékk til þátttöku hafi verið dregin til baka. Þær upplýsingar hafi komið í kjölfar þess að hún krafði stjórnendur ÍKSA skýringa á ferlinu, valnefndinni hafi ekki verið tilkynnt um málið að fyrra bragði.

Meira en bara heiðurinn

Framleiðendur kvikmynda og sjónvarpsefnis senda myndir sínar inn til keppni til ÍKSA. Þær eru síðan gerðar aðgengilegar fyrir fulltrúa í valnefndum sem gefa þeim stig. Stigahæstu myndirnar eru tilnefndar til verðlaunanna. Eftir að tilnefningarnar hafa verið opinberaðar tekur við kjör milli meðlima akademíunnar sem ræður hver fær Edduna. Kjörseðlar hafa verið sendir út. 

Til mikils er að vinna því tilnefningar til verðlaunanna snúast ekki bara um heiðurinn. Athygli á myndunum gerir þær söluvænlegri og eykur möguleika tilnefndra á frekari verkefnum og fjármögnun þeirra í framtíðinni.

Til Eddunnar árið 2019 eru gjaldgengar myndir frumsýndar á árinu 2018. 690 Vopnafjörður var hins vegar frumsýnd hérlendis 2017 en erlendis Íslands 2018. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst snýst umrædd undanþága um þetta atriði.

Framkvæmdastjóri ÍKSA, Auður Elísabet Jóhannsdóttir, vildi ekki svara spurningum Austurfréttar um ferlið þegar eftir því var leitað en sagði að tilkynning yrði send út um málið eftir fund stjórnar á morgun.

Karna Sigurðardóttir, leikstjóri 690 Vopnafjörður, vildi ekki tjá sig um málið á þessu stigi en sagðist bíða útskýringa frá stjórn ÍKSA.

Mynd: ÍKSA


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.