Orkumálinn 2024

Djúpivogur: Verktakinn hættur og verkið mánuði á eftir áætlun

djupivogurHellu- og varmalagnir ehf. sem unnu að byggingu nýrrar bryggju á Djúpavogi, hafa sagt sig frá verkinu. Verkið er um mánuði á eftir áætlun og væntanlega að minnsta kosti hálfur mánuður í að það hefjist á ný með nýjum verktaka.

„Nú tekur við uppgjör á verkinu og frágangur á verklokum við verktakann,“ segir Jóhann Þór Sigurðsson, tæknifræðingur hjá Siglingamálastofnun.

Fulltrúar Djúpavogshrepps kölluðu í byrjun vikunnar til fulltrúa AFLs – starfsgreinafélags og Heilbrigðiseftirlits Austurlands vegna gruns um að slóvenskir starfsmenn verktakans væru hlunnfarnir um kaup og aðstöðu.

Eftir skoðun var það niðurstaða stéttarfélagsins að á annað hundrað þúsund vantaði upp á greiðslur til starfsmannanna á mánuði auk þess sem aðbúnaður var ekki í lagi. Í gærmorgun sagði verktakinn sig frá verkinu. Starfsmennirnir lögðu niður vinnu og kröfðu á um launagreiðslur.

Jóhann segir að næstu skref séu að semja við aðra verktaka um yfirtöku á bryggjusmíðinni. Mögulega þurfi að bjóða hana út aftur.

„Nú þegar er verkið um mánuð á eftir áætlun og ég reikna með að það geti tekið 2-3 vikur þar til verk hefjist að nýju,“ segir hann.

Djúpavogshreppur er verkkaupi verksins en það fer eftir skilmálum Siglingamálastofnunar. Hellu- og varmalagnir buðu lægst í verkið og var tilboði þeirra tekið.

Forsvarsmenn AFLs hafa gagnrýnt vinnubrögð við útboðið þar sem ekki virðist hafi komið til greina að semja við aðra verktaka en þann sem þann sem lægst bauð. Slíkt gefi ekki endilega góða raun.

„AFL Starfsgreinafélag hefur ítrekað hvatt til þess að útboðsskilyrði opinberra framkvæmda verði endurskoðuð til að fyrirbyggja að kennitöluflakkarar bjóði í opinber verk og skilji síðan oftar en ekki eftir sig blóðuga slóð skulda við undirverktaka og byrgja.

Djúpavogshreppi var ekki gefinn kostur á að semja við aðra tilboðsgjafa en þann sem lægst bauð - þrátt fyrir að viðkomandi fyrirtæki hafi ekki haft neina starfssemi með höndum síðustu sex ár - en fyrra fyrirtæki forráðamanns verktakans var úrskurðað gjaldþrota í maí.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.