Orkumálinn 2024

Austfirðingar duglegir að nýta sér almenningssamgöngur

straeto aust webGóð nýting er á almenningssamgöngum á Austurlandi en Strætisvagnar Austurlands (SvAust) hófu formlega göngu sína í byrjun júní. Það er fyrsta heildstæða almenningssamgöngukerfið sem þjónar fjórðungnum í heild sinni.

„Það er mjög góð nýting á vögnunum og hún eykst með mánuði hverjum,“ segir Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú sem leitt hefur verkefnið.

Leiðarkerfi SVAust hefur verið rekið í hálft annað ár sem þróunarverkefnið Skipulagðar almenningssamgöngur á Austurlandi. Því var upphaflega hrundið af stað af Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) og Austurbrú á grundvelli samnings Vegagerðar ríkisins og landshlutasamtaka sveitarfélaga um sérleyfisakstur.

Leiðakerfið samræmt innan fjórðungs

Nú er búið að samræma leiðakerfið, gjaldsvæði og stoppistöðvar undir einu nafni. Ýmislegt er enn í vinnslu, svo sem upplýsingakerfi og bæklingar sem væntanlegir eru í þessum mánuði.

„Þetta hefur allt saman gengið ágætlega og mér er ekki kunnugt um neina hnökra sem komið hafa upp sem ekki hefur verið brugðist við strax,“ segir Ásta.

„Markmið sveitarfélaganna á Austurlandi er að heildstætt kerfi í almenningssamgöngum gegni því tvíþætta hlutverki að tengja byggðir landshlutans saman og veita íbúum og ferðamönnum raunhæfan valkost í ferðum jafnt innan fjórðungsins sem til hans og frá.“

Rekstur leiðakerfisins byggir á þremur stoðum. Við þá grunnþjónustu sem áður byggðist á sérleyfissamningum á milli Vegagerðarinnar og sérleyfishafa bætist annars vegar sá aksturs sem var á vegum einstakra sveitarfélaga og hins vegar starfsmannaakstur Alcoa Fjarðaáls.

Fjarðabyggð, Seyðisfjörður og Djúpivogur hafa haft milligöngu fyrir hönd þeirra átta sveitarfélaga sem eru á Austurlandi um samninga við viðkomandi akstursaðila og sér samningur er um akstur til Borgafjarðar.

Ný gjaldskrá

Með SVAust tók gildi ný gjaldskrá sem byggir á gjaldsvæðum. Hvert gjaldsvæði spannar 15 km og tekur almennt fargjald mið af þeim fjölda gjaldssvæða sem ferðast er um.

Lífeyrisþegar, hreyfihamlaðir og öryrkjar greiða þó aðeins fyrir eitt gjaldsvæði óháð vegalengd og framhaldsskólanemar njóta einnig þeirra fríðinda með framhaldsskólakorti SVAust.

Börn búsett í Fjarðabyggð á grunnskólaaldri fá frítt í strætó, þar sem sveitarfélagið niðurgreiðir þær ferðir með grunnskólakorti og sérstakur gjaldflokkur fyrir stórnotendur veitir fyrirtækjum og stofnunum afsláttarkjör vegna ferða starfsfólks til vinnu og frá.

Þá veita almenn mánaðarkort ótakmarkaðan aðgang að samgöngukerfinu án tillits til vegalengdar með stigvaxandi afslætti frá almennu fargjaldi allt eftir því hvort kort er til eins, þriggja, sex, níu eða tólf mánaða.

Nýtt merki og nafn kynnt

Þá var efnt til samkeppni um merki og nafn fyrri samgöngukerfið en þar varð Alma J. Árnadóttir, hönnuður, hlutskörpust.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur m.a. fram að vinningstillaga Ölmu sameini þá kosti að vera einföld, skýr og alþjóðleg. Þá haldi nafnið í þá nafnahefð sem fyrir sé á helstu stöðum á landinu, þar sem þjónusta almenningssamganga er veitt, svo sem Strætó bs. og SVA.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.