Vegamálastjóri: Hrunið seinkaði nýjum göngum á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar

nordfjardargong undirritun verksamnings sigad webVegurinn yfir Oddsskarð er barn síns tíma og uppfyllir ekki lengur kröfur um umferðaröryggi og akstursþægindi. Undirbúningi var að mestu lokið árið 2008 þegar efnahagshrunið skall á og framkvæmdum var þá frestað.

Þetta kom fram í máli vegamálastjóra, Hreins Haraldssonar, þegar verksamningur um framkvæmdir við ný göng var undirritaður á föstudaginn fyrir viku. Lægsta boðið áttu Metrostav frá Tékklandi og Suðurverk en heildarkostnaður við verkið er áætlaður tólf milljarðar króna.

„Það þarf varla að segja viðstöddum að núverandi Norðfjarðarvegur milli Eskifjarðar og Norðfjarðar uppfyllir á köflum ekki nútímakröfur um umferðaröryggi og akstursþægindi. Hann er brattur, með kröppum beygjum og takmarkaðri sjónlengd,“ sagði Hreinn.

Lokið var við að grafa núverandi göng árið 1977. Þau eru 640 metra löng, einbreið með tveimur útskotum og í þeim er blindhæð. Að auki eru þau í 626 metra hæð yfir sjávarmáli og vegurinn því oft ófær á veturna.

Hreinn benti á að lengi hefðu menn rætt möguleikana á nýjum göngum. „Í fyrstu skýrslu sem unnin var til að undirbúa langtímaáætlun um jarðgöng á vegakerfinu og kom út árið 1987 voru brýnustu verkefnin talin vera Ólafsfjarðarmúli, Botnsheiði og Breiðadalsheiði, Fjarðarheiði og Oddsskarð.“

Þrjú af þessum göngum hafa síðar verið boruð, líkt og fleiri göng í millitíðinni, en nú hillir undir ný Norðfjarðargöng.

Árin 2007 og 2008 voru jarðlög á svæðinu rannsökuð ítarlega, endanleg lega ganganna ákveðin og mannvirki hönnuð. Haustið 2008 skall efnahagshrunið hins vegar á.

„Eins og svo víða annars staðar var frekari undirbúningi síðan frestað í kjölfar efnahagshrunsins meðan beðið var ákvörðunar um fjárveitingar til framkvæmda,“ sagði Hreinn.

Með samþykkt samgönguáætlunar á Alþingi í fyrravor var ákveðið að framkvæmdir hæfust í haust.

„Verktakinn áætlar að hefja gangagröft frá Eskifirði í nóvember á þessu ári og grafa þaðan um 4,9 km, og á móti frá Fannardal í Norðfirði er ætlunin að byrja í janúar 2014 og grafa þaðan samtals 2,6 km. Miðað er við að sjálfum gangagreftrinum ljúki á árinu 2015 og heildarverkinu síðan 1. september 2017.“

Frá undirritun samningsins í Egilsbúð. Mynd: Sigurður Aðalsteinsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.