63 nemendur brautskráðir af 14 námsbrautum

Samtals voru 63 nemendur brautskráðir frá Verkmenntaskóla Austurlands og Menntaskólanum á Egilsstöðum síðustu helgina í maí.



Athöfn Verkmenntaskóla Austurlands fór fram föstudaginn 24. maí í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði, en þar brautskráðust 35 nemendur af 11 námsbrautum. Lilja Guðný Jóhannesdóttir, skólameistari, segir það vera lýsandi fyrir hið fjölbreytta námsframboð skólans og í ár brautskráðust í fyrsta skipti stúdentar af nýsköpunar- og tæknibraut. Nánar má lesa um viðurkenningar fyrir árangur nemenda hér.

Athygli vakti að þrjár systur brautskráðust saman í gær, þær Rósa Margrét Möller Óladóttir, Halldóra Marín Svansdóttir og Rebekka Rut Svansdóttir frá Reyðarfirði. Nánar verður fjallað um þær í Austurglugganum og Austurfrétt á næstu vikum.

Útskrift Menntaskólans á Egilsstöðum fór fram laugardaginn 24. maí í Egilsstaðakirju, en þar brautskráðust 28 nemendur af þremur námsbrautum. Nánar má lesa um viðurkenningar fyrir árangur nemenda hér.


Umhverfismál í brennidepli í VA
Lilja Guðný flutti ávarp við brautskráninguna og gerði meðal annars að umtalsefni mikilvægi umhverfisfræðslu í skólum en VA hlaut Grænfána síðastliðið haust.
„Verkefni eins og skólar á grænni grein eru gífurlega mikilvæg í skólastarfi enda sjálfbærni einn af grunnþáttum menntunar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Með fræðslu og virkri þátttöku eykst skilningur á eigin vistspori, vistspori samfélaga og þjóða og með þeim hætti stuðlum við að sjálfbærri þróun og hófsemi. 

Enda eru ungmenni víða um heim farin að láta til sín taka í umhverfismálum, ekki síst þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ísland er þar ekki undanskilið en íslenskir og erlendir stúdentar hafa boðað til loftslagsverkfalla til að vekja athygli á vandanum sem við blasir og krefjast aðgerða. Þetta alþjóðlega verkfall ungmenna er innblásið af 16 ára gamalli sænskri stúlku, Gretu Thunberg, en skólaverkfall hennar til að vekja athygli á alvarlegri stöðu í loftslagsmálum hefur vakið mikla athygli,” sagði Lilja Guðný.

Annasamur vetur að baki í ME
Ári Ólason, skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum, greindi frá viðburðaríku ári í sinni ræðu, en meðal annars hófust framkvæmdir við heimavistarhús. Þá kom Árni inn á Fullveldishátíðina sem haldin var í skólanum í desember og ættfræðivefinn Ættir Austfirðinga sem opnaður var við sama tilefni. Þá greindi hann einnig frá ánægjulegri niðurstöðu könnunar á vegum SFR; 

„Menntaskólinn er annars góður vinnustaður og starfsánægja starfsmanna er mikil. Það endurspeglast til dæmis í nýútkominni könnun SFR um stofnun ársins 2019, en þar er ME í fjórða sæti framhaldsskóla um útnefningu fyrir stofnun ársins og númer ellefu í heildina yfir 162 fyrirtæki og stofnanir landsins. Þetta er vissulega mjög ánægjulegt fyrir okkur öll að sjá en áfram skal haldið í þá átt að bæta enn frekar þá þætti sem snúa að starfsánægju og bættum samskiptum innan Menntaskólans. 

Ennfremur sýndu samanburðartölur um launasetningu innan framhaldsskóla 2018 að kennarar í ME voru efstir þriðja árið í röð hvað varðaði grunnlaun. Það er sömuleiðis mjög ánægjulegt og sýnir að vel hefur tekist vel til með launasetningu hér innan skólans undanfarin ár,” sagði Árni.

 

Brautskráning ME vor 2019

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.