Flóð í Jökulsárhlíð: Landeigendur óttast að grugguga vatnið skaði veiði

heradssandur vatnvextir 05062013 2Lagarfljót og Jökulsá á Dal flæða nú út úr farvegi sínum yfir stór landflæmi á Úthéraði. Landeigendur og veiðiréttarhafar yst í Jökulsárhlíð eru uggandi vegna stöðunnar.

Lagarfljót og Jökulsá hafa lengst af fallið til sjávar í sameiginlegum ósi á miðjum Héraðssandi. Áður en Kárahnjúkavirkjun var reist var straumur í Jöklu umtalsvert meiri en í Lagarfljóti og þannig sá áin um að grafa út þennan sameiginlega ós. Ósinn hefur þó alltaf verið á einhverri hreyfingu en jafnan leitað til baka að miðjum sandinum.

Eftir að meginvatnsmagni Jökulsár hefur verið veitt í Lagarfljót hefur orðið breyting á þessu. Nú streymir Lagarfljót af miklum þunga þvert á stefnu Jökulsár og hefur ós þessara tveggja vatnsfalla verið að færast á miklum hraða norður eftir sandinum. 

Í vatnavöxtunum að undanförnu hefur ósinn ekki getað flutt allt það vatn til sjávar sem að honum fellur og rennur nú Lagarfljót eftir svokölluðum Leirum fyrir innan Héraðssand og þannig beint í ós Fögruhlíðarár í Jökulsárhlíð.

Áin er þekkt fyrir góða bleikjuveiði, einkum í ós hennar, og unnið hefur verið að því að byggja upp laxveiði þar. Hið grugguga vatn úr Lagarfljóti kemur nú í veg fyrir veiði í ánni.

Stefán Geirsson bóndi á Ketilsstöðum sem er ysti bær í Hlíðinni hefur áhyggjur af stöðu mála. „Ég hef mestar áhyggjur af því að Lagarfljót myndi sér fastan farveg eftir Leirunum. Þá er þetta komið til að vera. Eins og landið liggur hér þá mun síðan í hvert skipti sem eitthvað vex hér í ám flæða inn á land hér í Blautumýrina og jafnvel inn á Eyju með tilheyrandi vandræðum.“

Auk Ketilsstaða eru næstu bæir við flóðasvæðið Bakkagerði og Hólmatunga og ekki þarf mikið að breytast til að flæði þar að bæjunum. Ekki er þó búist við að svo verði að þessu sinni.

Bændur á svæðinu og fulltrúar veiðifélags Fögruhlíðarár hafa hitt fulltrúa sveitarfélagsins og Landsvirkjunar til að fara yfir stöðuna. Starfsmenn Landsvirkjunar hafa undanfarna daga fylgst með vatnsstöðunni og tekið myndir af svæðinu með það í huga að meta stöðuna og skoða hvaða aðgerðir eru hugsanlegar til að bregðast við þessari þróun. Ekkert liggur þó fyrir á þessari stundu um hvort og þá til hvaða aðgerða verður gripið.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.