Orkumálinn 2024

Útskrift úr VA: Skólinn er þroskavettvangur

va utskrift verdlaun willgeir webTæplega þrjátíu nemendur útskrifuðust úr Verkmenntaskóla Austurlands á nýloknu skólaári. Fráfarandi skólameistari segir skólagöngu flestra vera þroskaskeið þótt sumir líti á skólann sem biðstöð áður en út í alvöruna komi.

„Flestir átta sig á því að skóli merkir tækifæri öðrum finnst hann kvöð og einhverjir telja að hann sé einskonar biðstöð þar til lífið sjálft hefst fyrir alvöru,“ sagði Þórður Júlíusson, skólameistari, við brautskráninguna.

„Þegar ég lít langt til baka þá finnst mér að skólinn hafi verið þroskavettvangur fyrst og fremst. Þroskinn er margs konar t.d. vitsmunalegur, félagslegur og tilfinningarlegur. Þeir sem útskrifast hér í dag eru í raun að ljúka skyldunámi. Þau hafa þroskast og lært en eiga þó enn meira ólært.“

29 nemendur útskrifaðir

Nú útskrifuðust 29 nemendur, þar af þrír sem luku námi um áramót. Flestir nýstúdentanna, sjö talsins, útskrifast af félagsfræðibraut. Alls stunduðu 190 nemendur nám við skólann í vetur.

Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og félagsstörf. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir fékk verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði, náttúrufræðigreinum og vel unnin störf í listakademíu VA.

Sunna Júlía Þórðardóttur fékk verðlaun fyrir árangur sinn í dönsku og þýsku en Arnbjörg Helga Björgvinsdóttir fyrir íslensku.

Bergrós Arna Sævarsdóttir fékk verðlaun fyrir góðan árangur í félagsgreinum og Björn Sævar Eggertsson hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í málmiðngreinum.

Guðjón Björn Guðbjartsson fékk verðlaun fyrir vel unnin störf í listakademíunni og fyrir áhuga og vinnu í þágu forvarna í leik og námi. Þá fékk hann viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu nemendafélags VA ásamt Páli Jónssyni og Jóni Vigfússyni.

Elvar á eftir að verða röggsamur stjórnandi

Þórður gegndi stöðu skólameistara í vetur í leyfi Olgu Lísu Garðarsdóttur. Hann sagði árið hafa verið viðburðaríkt og gaman að koma að stjórninni eftir aldarþriðjung sem kennari.

Í vetur hafi kynning á skólanum verið efld til þess að ná því markmiði að VA verði fyrstu valkostur nemenda í Fjarðabyggð er þeir hefji framhaldsskólanám og allra nemenda á Austurlandi í iðn- og tækninámi.

Snemma varð ljóst að Olga Lísa myndi ekki snúa aftur úr leyfinu til Neskaupstaðar. Í hennar stað hefur Elvar Jónsson verið skipaður skólameistari til næstu fimm ára.

„Elvar hefur kennt við skólann frá árinu 2010 og verið afar áhugasamur um framsækið og hugmyndaríkt skólastarf. Enginn vafi er á því að hann mun sinna forystuhlutverkinu í skólanum af röggsemi,“ sagði Þórður um eftirmann sinn.

Í fjárhúsunum með nemendum í dimmiteringu

Lokaorðum sínum beindi hann til útskriftarnemanna sem ekki var annað að heyra en honum þætti sárt að sjá á bak.

„Þegar þið vöktuð mig að morgni dags dimmiteringar varð mér ljóst að leiðir okkar væru að skiljast. Þið voruð hress en ég var dapur.

Þið vilduð fara í fjárhúsið og fóðra sauðféð og auðvitað var ég til því hvar er betra að fela tárin og ekkasogin en í hópi ofurglaðra dimmitanta og jarmandi sauðkinda. Farnist ykkur vel.“

Mynd: William Geir Þorsteinsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.