Unnar Geir hinn fullkomni jafningi: Ég þurfti líka að takast á við eigin fordóma

unnargeir_fullkomnir_jafningi_0004_web.jpgUnnar Geir Unnarsson segir að ein stærsta áskorunin við að setja upp einleikinn Hinn fullkomni jafningi hafi verið að takast á við hans eigin fordóma. Hann segir kjarna verksins vera ádeilu á samfélag sem ekki sé lengur til, en ennþá séu fordómar í samfélaginu og mikilvægt að muna hvar það var fyrir 15 árum síðan.

Verkið „Hinn fullkomni jafningi“ sem leikhópurinn Artík sýndi á Egilsstöðum nýverið segir frá fimm karlmönnum sem takast á mismunandi hátt við samkynhneigð sína. Felix Bergsson skrifaði verkið og lék þegar það var sett fyrst upp árið 1999. Unnar Geir, sem er alinn upp á Egilsstöðum en lauk námi við ASAD leiklistarskólann í Englandi fyrir tveimur árum, var þá sviðsmaður.

Þeir fóru víða með verkið á sínum tíma, meðal annars til Lundúna. Unnar segir að það hafi verið í þeirri borg þrettán árum síðar sem Felix benti honum á þá hugmynd að setja verkið upp.

„Felix var nú ekki að ota verkinu að mér, heldur benti hann mér á þá leið að setja upp einleik á Íslandi, svona til að vega og meta hvort það ætti betur við mig að leika á Íslandi eða úti í hinum enskumælandi heimi.

Eftir okkar samtal las ég marga einleiki áður en ég gaf Hinum fullkomna jafningja nokkurn gaum. En verkið er vel skrifað og það er mikil áskorun á leikarann. Að auki var þetta nokkurs konar prófraun á þá tækni sem ég lærði úti SofA þar sem áherslan er mikil á persónusköpun. 

Hinn Fullkomni Jafningi býr líka yfir svo sterkri sögn sem á alltaf við, nefnilega að við hvert og eitt berum ábyrgð á eigin hamnigju, þannig að hvort við finnum hana stjórnast af því hvort við erum tilbúin að bera ábyrgð á okkar eigin hamingju.“

Fordómar eru enn við lýði

Í verkinu segir frá Ara, kennara á fertugsaldri sem á barn úr hjónabandi sem hann stofnaði til áður en hann kom út úr skápnum. Ásgeir, eða Ásta frænka, er á sjötugsaldri og man frumdaga réttindabaráttu samkynhneigðra hérlendis. Máni er um tvítugt og á leið utan á vit ævintýranna. Steinþór Reykdal er virðulegur lögfræðingur um þrítugt sem helgað hefur sig starfinu. Albert er úr þorpi utan af landi þar sem áherslan er á karlmennsku og lítið umburðarlyndi gagnvart „stelpustrákum.“

Unnar Geir segir að „sem betur fer“ sé þörfin fyrir leikverk sem þetta „alls ekki jafn brennandi“ og þegar það var skrifað. Mikilvægt sé þó að muna hvar íslenskt samfélag hafi verið á þeim tíma.

„Við búum því miður enn í samfélagi þar sem fordómar eru við líði, fordómar eru náttúrulega ekkert nema fáfræði. Það þekki ég best á sjálfum mér, þegar ég hef verið að vinna í mínum eigin fordómum. Þegar ég fer að skoða það hvers vegna mér finnst þetta eða hitt um þennan eða hinn þá er það venjulega byggt á fyrirfram ákveðnum hugsunum frekar en á staðreyndum.

Til dæmis var erfitt að fá Mána og Ástu frænku í verkinu til að sitja almennilega í því formi sem við vildum. Þó veita þær persónur gefa hvað mestu gleðina og eru skemmtilegastar að leika, núna. 

Það sem stóð í vegi fyrir minni túlkun voru fordómar mínir gagnvart kvenlegum (hommalegum) samkynhneigðum mönnum. Sem er náttúrulega alveg fáranlegt, sérstaklega fyrir þá sem hafa séð mig á dansgólfinu á 3 glasi. Hugsunin var eitthvað í líkingu við: „Allt í lagi ég er hommi, en ég er ekki hommalegur, sjáðu þennan þarna, hann er sko algjör hommi.“

Samt eigum við þessum strákum svo mikið að þakka því þeir hafa rutt brautina með þessu „mér er alveg sama hvað þér finnst“ viðhorfi sínu. En það var ekki fyrr en ég var búin að gera mér grein fyrir þessum þankagangi mínum sem verkið small saman og þetta jafnvægi myndaðist sem skapar heildina sem sýningin er.“

Ádeila á samfélag sem við búum ekki lengur í

Þrátt fyrir fimmtán ára þróun og þjóðfélagsbreytingar segir Unnar að aldrei hafi komið til greina að staðfæra verkið til dagsins í dag.

„Verkið er svo greinilega skrifað í þeim tíðaranda sem var 1998 að það hefði hreinlega ekki virkað hefðum við fært það fram í tímann. Kjarni verksins er samfélagsádeila á samfélag sem við búum ekki lengur í. En það er einmitt þess vegna sem við vildum setja upp þetta verk því það er svo mikilvægt að muna hvar við vorum fyrir ekki svo mörgum árum.“

Unnar Geir stofnaði leikhópinn ásamt Jenný Láru Arnórsdóttur utan um sýningarnar á Hinum fullkomna jafninga en þau voru saman í ASAD-skólanum. Þau sýndu verkið átta sinnum á höfuðborgarsvæðinu fyrir áramót. 

Unnar Geir segir þær sýningar hafa fengið „vonum framar“ sérstaklega miðað við að á ferðinni var „óþekktur leikhópur, óþekktur leikari og óþekktur leikstjóri.“ Tækifærið til að koma austur og sýna tvisvar í Sláturhúsinu hafi verið kærkomið. „Það er ótrúlega mikilvægt að það skulli vera komin vettfangur fyrir atvinnuleikhús á Egilsstöðum.“

Eftir hinar góðu viðtökur í haust hafi leikhópurinn ákveðið að halda áfram og setja á svið fleiri verk. Annað hvort verði þýdd ný bresk verk eða haldið áfram að setja íslensk verk upp á nýtt.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.