40 ár frá því Hrönn SH fórst: Held að margir hafi þurft á þessu að halda

Fjölmennt var í kaffisamsæti sem haldið var síðasta sunnudag á Eskifirði til minningar um þá sem létust þegar Hrönn SH fórst í mynni Reyðarfjarðar fyrir 40 árum. Skipuleggjandi afhafnarinnar segir slysið hafa verið þungt áfall fyrir lítið og náið samfélag.

„Á þessum tíma var ekkert til sem hét áfallateymi. Ég held að það hafi margir þurft á stund sem þessari að halda,“ segir Lára Thorarensen, sem stóð að baki samsætinu.

Afhöfnin hófst á því að blómsveigur var lagður að minnisvarða um drukknaða sjómenn, en ákvörðun um gerð hans var tekin eftir sjómannadaginn 1979 sem haldinn var í skugga slyssins. Þar flutti Sigurður Rúnar Ragnarsson, sóknarprestur í Neskaupstað, hugvekju áður farið var inn í Valhöll þar sem kaffið var borið fram.

Lára segir að skipuleggjendur hafi verið búnir að dekka upp borð fyrir 50-60 manns í félagsheimilinu en það var ekki nóg þar sem gestirnir voru um 130 talsins og komu víða af. „Maður varð hálf klökkur yfir viðtökunum.“

Hvarf fljótt

Hrönn SH fórst að kvöldi 30. apríl árið 1979 en neyðarkallið barst þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í ellefu. Báturinn hafði fyrr um daginn landað 15 tonnum af fiski á Breiðdalsvík og þar með lokið netavertíðinni. Báturinn var því á leið til heimahafnar á Eskifirði, þar sem flestir skipverja bjuggu.

Hrönn var samferða vélbátnum Magnúsi frá Norðfirði norður með Austfjörðum en leiðir þeirra skildu þegar Hrönn beygði inn Reyðarfjörð. Skömmu seinna barst neyðarkall með orðunum: „Magnús, komdu strax!“.

Þótt skipverjar á Magnúsi væri skjótir að bregðast við þeim sáu þeir aðeins brak í sjónum þegar þeir komu á staðinn þaðan sem kallið. Heimilisfólk á Vattarnesi, ysta bænum í Reyðarfirði, hafði séð ljós koma inn fjörðinn en þegar neyðarkallið kom kortéri síðar sást ekkert til Hrannar.

Einn fór í land á Breiðdalsvík, annar um borð

Í fréttum frá þessum tíma kemur fram að veður þetta kvöld hafi verið slæmt, strekkingur af norðri, frost, skyggni slæmt og nokkur ísing.

Á Breiðdalsvík fór einn skipverji frá borði og keyrði suður til Reykjavíkur þar sem kona hans var að fara að eiga barn. Í viðtali við Morgunblaðið segir skipverjinn frá því að hann hefði átt að fara á Eskifjörð til að sækja ökuskírteinið sitt, en ákveðið þess í stað að keyra beint suður próflaus.

Í hans stað fór um borð Sveinn Eiríksson, móðurbróðir Láru. „Það er svo sérstakt, hann kvaddi tvisvar þegar hann fór suður á Breiðdalsvík,“ rifjar Lára upp.

Þung skref upp brekkuna

Þegar tilkynningin um slysið barst voru margir Eskfirðingar að skemmta sér á dansleik í Valhöll í tilefni af 1. maí. Lára var að koma af skólaballi í Neskaupstað með rútu sem lagði fyrir framan Valhöll.

„Vinkona mín kemur inn í rútuna og segir mér að fara heim. Ég skildi ekkert í henni og fór fyrir utan ballið. Þá kemur hún aftur og rekur mig heim með látum.

Frá Valhöll að heimili mínu var smá brekka og það var í henni sá snjór. Mér hefur aldrei fundist ég vera jafn lengi að labba upp hlíðina. Þar vissi enginn hvað var að gerast því símasambandið var takmarkað. Ég man að afi fór niður í hús eins skipverjanna því konan hans var náfrænka okkar.“

Skellur fyrir lítið samfélag

Strax hófst víðtæk leit á sjó, frá landi og úr lofti en vegna veðurs voru aðstæður erfiðar. Lík eins skipverja fannst í hádeginu daginn eftir. Leit var hætt tíu dögum eftir slysið og þeir sex sem voru um borð þar með taldir af.

„Þetta var skellur fyrir lítið samfélag þar sem allir þekkja allir, þetta hefur áhrif á alla eins og sást á mætingunni á sunnudag. Í kjölfarið átti maður að berja sér á brjóst, vera sterkur og ekki vera að þessu væli,“ rifjar Lára upp.

Hrönn var 41 tonna eikarbátur, smíðaður á Akureyri árið 1956. Hrönn var í eigu þriggja skipverja þegar hún fórst, sem höfðu keypt hana frá Ólafsvík ári fyrr.

Þeir fórust með Hrönn SH:
Jóhannes Steinsson, skipstjóri
Eiríkur Bjarnason, vélstjóri
Stefán V. Guðmundsson, stýrimaður
Kjartan Ólafsson, háseti
Sveinn Eiríksson, háseti
Gunnar Hafdal Ingvarsson, háseti

Mynd frá afhöfn: Þórarinn Hávarðsson
Mynd af skipverjum: Austurland/timarit.is

hronn sh skipverjar timarit

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.