Hrafnkell hættir á Héraðsskjalasafninu: Slítandi að berjast sífellt við takmarkaðan skilning

safnahus egs 0008 web

Hrafnkell Lárusson, forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austurlands, hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu frá og með 1. desember. Hann segir það hafa verið slítandi að berjast sífellt við takmarkaðan skilning ráðamanna á starfsemi safnsins en mikill samdráttur hefur orðið á fjárframlögum til þess undanfarin ár.

 

„Þau fimm ár sem ég hef sinnt starfi forstöðumanns hafa verið viðburða- og lærdómsrík og ég hef notið þess að starfa með hæfu og traustu fólki að fjölbreyttum verkefnum. Ég hef tengst stofnuninni og samstarfsfólkinu í Safnahúsinu sterkum böndum og það er því ekki sársaukalaust að ég kýs að láta af störfum,“ segir í bókun sem Hrafnkell lagði fram á aðalfundi safnsins sem haldinn var í síðustu viku.

Utanaðkomandi þættir hafa mest áhrif á ákvörðun Hrafnkels en framlög til rekstursins hafa dregist verulega saman undanfarin ár. 

„Sífelld barátta við takmarkaðan skilning, víða í stjórnsýslunni, á hlutverki og mikilvægi starfsemi héraðsskjalasafna, hefur líka verið mjög slítandi og á sinn þátt í því að ég tel að farsælast sé, bæði fyrir sjálfan mig og Héraðsskjalasafnið, að ég hverfi til annarra starfa.“

 

Hann segist „stoltur“ af starfinu og telur sig skila af sér góðu búi þrátt fyrir erfiðar aðstæður. „Ég hef ávallt gert mitt besta við að verja hagsmuni stofnunarinnar og efla starf hennar og ég hef lagt mig fram við að halda úti metnaðarfullri starfsemi á tímum þrenginga.“

Tæplega 5,3 milljóna tap varð af rekstri safnsins á síðasta ári. Fastir starfsmenn voru þrír en að jafnaði voru sjö starfsmenn við störf á árinu. Manntalsskráningarverkefni, sem hófst í mars 2008 lauk í janúar en í febrúar var byrjað á skönnun og skráningu ljósmynda í samvinnu við tvö önnur héraðsskjalasöfn. Gestir á safninu voru 1415.

Uppsögn Hrafnkels tekur gildi 1. janúar 2013 en hann lætur væntanlega af störfum um miðjan febrúar. Starfið verður auglýst í byrjun desember.

Ástand Safnahússins var meðal þess sem rætt var á aðalfundinum. „Skortur á viðhaldi, viðvarandi leki, úrsérgengið loftræsti- og hitakerfi, takmarkanir á aðgengi og nauðsyn á bættri vinnuaðstöðu starfsfólks eru meðal helstu áhyggjuefna í því sambandi.“

 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.