Tæpar sextíu milljónir austur í viðhald ferðamannastaða

teigarhorn 2013 asRúmum tuttugu milljónum króna verður varið til uppbyggingar á Teigarhorni í Berufirði á næstunni. Styrkurinn er hluti af átaki ríkisstjórnarinnar til uppbyggingar og verndar ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjón ríkisins.

Skýrt var frá styrkjunum í morgun en alls er úthlutað tæpum 850 milljónum í 104 verkefni á 51 stað á landinu auk þess sem viðbótarfé verður varið til landvörslu um allt land.

Sex verkefni á fimm stöðum eystra skipta með sér 58,5 milljónum króna eða tæpum 7% heildarupphæðarinnar.

Mest fær Teigarhorn, tuttugu milljónir renna þar til endurbóta á friðlandsmiðstöð og tvær milljónir fyrir þátt Umhverfisstofnunar í gerð deiliskipulags.

Til Sómastaða í Reyðarfirði er veitt 13,5 milljónum þar sem koma á upp aðstöðu fyrir gæslumann auk salernisaðstöðu á bílastæði fyrir innan húsið.

Tíu milljónum er veitt til viðhalds vegar að Galtastöðum fram í Hróarstungu, sjö milljónum til salernisaðstöðu við Snæfell og loks sex milljónum til að leggja göngustíga að Helgustaðanámu.

Féð rennur til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem hefur eftirlit með verkefnunum. Í tilkynningu segir að á næstu árum verði ráðist í enn frekari umbætur á vinsælum ferðamannastöðum í umsjón ríkisins.

Þar segir einnig að vinna sé hafin við heildarstefnumótun um ferðaþjónustu í landinu auk þess sem unnin verði landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn.

Á landsvísu er hæstu upphæðinni veitt til Þingvalla, alls 156 milljónum króna. Áherslan er á nokkra af helstu ferðamannastöðum landsins svo sem Dettifoss, Skaftafell, Dimmuborgir og Gullfoss.

Mynd: Andrés Skúlason

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.