30% afsláttur í tilefni 30 ára afmælis

Þrjátíu prósenta afsláttur var á öllum vörum, nema tóbaki, í versluninni Kauptúni á Vopnafirði í dag í tilefni þess að þrjátíu ár eru liðin frá opnun hennar. Kaupmaðurinn segir að reksturinn hafi oft verið strembinn í gegnum tíðina en Vopnfirðingar verið tryggir viðskiptavinir.

„Það hefur verið hálfgerð Þorláksmessustemming í búðinni í dag og fólk á ferðinni með fullar körfur. Það vantaði eitthvað jákvætt eftir það sem á undan er gengið,“ segir Árni Róbertsson, kaupmaður í Kauptúni á Vopnafirði.

Það var á þessum degi fyrir þrjátíu árum sem Árni og þáverandi eiginkona hans, Guðrún Steingrímsdóttir, opnuðu verslunina Guðrúnu í bílskúrnum á heimil þeirra að Skálanesgötu. Þau höfðu áður verið með umboðsverslun en fengu hvatningu frá viðskiptavinum um að opna búð.

Strikamerki og debetkort

Fljótt varð þröngt um í bílskúrnum og tóku þau annan bílskúr í þorpinu á leigu til að geyma vörulagerinn. Árið 1993 opnaði verslunin í nýju húsnæði og fékk þá nafnið Kauptún. Fleira var einnig nýjungakennt í versluninni.

„Við tókum þá strax upp strikamerki sem þóttu framandi. Við vorum líka með þeim fyrstu til að taka við debetkortum. Það var þrýst á kaupmenn að hafna þeim en þeir sem vildu koma þeim á markaðinn leituðu að verslunum til að byrja hjá. Ég fékk góða samninga og sló til. Þetta er hluti af því að reyna alltaf að rýna aðeins fram í tímann, ef hægt er.“

Búnaðurinn í versluninni hefur verið í stöðugri þróun og nýverið var skipt um kæla í henni. Frá árinu 2010 hafa allir kælar hennar verið yfirbyggðir, sem ekki tíðkast alls staðar þótt það eigi að spara rafmagn og vera umhverfisvænna.

Síðasti kaupmaðurinn

Verslunin hefur verið á núverandi stað frá árinu 2004 en Árni og fjölskylda tóku við húsnæðinu þegar Kaupfélag Vopnfirðinga varð gjaldþrota. Það er dæmi um hvernig verslunarumhverfið hefur breyst síðan rekstur Kauptúns hófst.

„Þá voru kaupfélög eða stakar verslanir í hverjum bæ frá Hornafirði til Vopnafjarðar. Ég held að við séum að verða ein eftir. Matvöruverslun á landinu er að mestu komin í hendurnar á þremur keðjum.“

Flutningskostnaðurinn þungur

Rekstur lítillar einingar á borð við Kauptún hefur ekki alltaf verið auðveldur. „Þetta hefur stundum verið svakalega strembið en einhvern vegin höfum við alltaf komist í gegn. Við upplifum líka sveiflur í samfélaginu, ef lítið er að gera hjá fólkinu minnkar verslunin.

Samkeppnin við keðjurnar er erfið. Við sjáum vöruna oft auglýsta ódýrari í Bónus heldur en við fáum hana frá heildsala. Flutningskostnaðurinn vegur líka þungt og hefur hækkað töluvert síðustu tvö ár. Ég held að það sé ekki til dýrari flutningsleið en Reykjavík-Vopnafjörður.“

Í Kauptúni fæst ekki bara matvara heldur ýmis sérvara svo sem búsáhöld, ritföng og raftæki. Í tuttugu ár hefur Árni haft það fyrir reglu að bjóða öldruðum og öryrkjum að fá sendar vörur heim úr búðinni að fá vörur sendar heim úr búðinni tvisvar í viku.

Þakklátur Vopnfirðingum fyrir stuðninginn

Hann segir Vopnfirðinga hafa verið tryggir versluninni en besta dæmið um það sé þegar verslunin lokaði í átta daga sumarið 2014 eftir eldsvoða. Hann segir það hafa verið mikið afrek að ná að panta inn vörur og hreinsa og standsetja búðina á viku.

„Ég lít á það sem kraftaverk. Við sváfum ekki mikið þá vikuna. Verslunarreksturinn er líka viss ástríða. Maður þarf að vera vakandi og sofandi yfir honum á vissum tímum, annars gengur hann ekki.

Við erum mjög þakklátir fyrir stuðninginn sem við fengum þennan tíma. Vopnfirðingar komu og spurðu okkur hvenær við ætluðum að opna, þeir væru að verða uppiskroppa með birgðirnar heima hjá sér.

Ég held að staðreyndin sé sú að þótt við höfum alltaf barist fyrir bættum samgöngum þá hafi einangrunin líka hjálpað okkur. Út af henni þarf að vera meiri þjónusta á staðnum. Það eru fleiri fyrirtæki sem stofnuð voru um sama leyti sem lifa í dag.“

Matvara úr heimabyggð

Árni, sem fagnar sextugsafmæli sínu í næstu viku, hefur í hyggju að minnka við sig í rekstrinum enda eru synir hans, Nikulás og Steingrímur, komnir inn í hann. Saman hafa þeir lagt gruninn að áframhaldandi þróun Kauptúns sem byggist meðal annars á sölu matvöru úr heimabyggð.

„Við byrjuðum í sumar að selja kjöt frá Sláturfélaginu sem hefur verið í næsta húsi allan þann tíma sem við höfum verið hér. Við kryddum kjötið og pökkum því. Við erum líka með hákarl og fisk af svæðinu og viljum gjarnan bjóða meira, við erum að skoða harðfisk. Þetta er sérstaða sem við viljum hafa.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.