40 ár frá snjóflóðunum í Neskaupstað: Síðan kom ógurlegur hvellur

snjolflod visir2Þess er minnst í dag að fjörutíu ár eru liðin frá því að tvö mannskæð snjóflóð féllu í Neskaupstað. Tólf manns fórust í flóðunum.

Flóðin tvö féllu um klukkan tvö föstudaginn 20. desember á íbúðarhús, frystihús og síldarvinnslu. Vegna óveðurs dagana á undan voru mun færri en ella að störfum á athafnasvæði Síldarvinnslunnar.

„Ég vissi ekki fyrr en það skall á húsinu. Það sópaði mér ofan af þakinu, svo að ég féll niður af því og ofan á rútu sem var þar fyrir neðan. Með henni sópaðist ég svo niður undir sjó. Annars gerðist þetta allt svo snöggt, að ég man eiginlega ekki hvað gerðist," er haft eftir Hallgrími Þórarinssyni sem var við vinnu í frystihúsinu þegar flóðið féll.

Norðfjörður var einangraður vegna ófærðar og veðurs fyrstu tólf tímana eftir að flóðið féll en aðstoð kom þá sjóleiðis frá Eskifirði. Flugvél Landhelgisgæslunnar flaug austur daginn eftir og varpaði út hjálpargögnum en flug var bannað í tíu mílna radíus af ótta við frekari flóð.

Eins og eftir atómsprengju

„Verksmiðjuhúsið er eins og eftir atómsprengju, og það litla, sem stendur uppi, er eins og brak, en allt er fullt úti og inni af snjó," ritar Benedikt Guttormsson, fréttaritari Tímans í blaðinu daginn eftir flóðin.

„Þetta var ógurlegur stormsveipur, ógnvænleg sjón og nokkuð, sem maður hefði aldrei getað trúað að gæti átt sér stað," sagði sjónarvottur í samtali við Vísi.

„Ég heyrði skyndilega geysilegan þyt í lofti, og leit út um gluggann, en sá ekkert nema hvíta þúst sem ég hélt að væri skafrenningur. Síðan kom ógurlegur hvellur, það hrikti i húsinu og rúður brotnuðu því að útjaðar flóðsins hafði lent á því," sagði Eiríkur Ásmundsson en verkstæði hans lenti í flóðinu.

Snjóflóðið hreif með sér bílinn sem Sæmundur Gíslason var á ferð í. „Ég var í bíl fyrir ofan bræðsluna á efri götunni og sá þegar allt helv... draslið kom æðandi. Ég sá heilt fjall af snjó æða yfir tankana þarna í hlíðinni og þeyta þeim með sér eins og korktöppum á móti mér. Ég stöðvaði bílinn strax, en það var ekki neinn tími til neins og flóðið hrifsaði bílinn með sér."

„Það, sem ég man bezt, er hávaðinn, sem var algjörlega ærandi og mér fannst hausinn á mér vera að rifna af. Hvað ég geri á næstunni? Það er helzt að maður geti gert eitthvað í að byggja upp aftur," sagði Sigurjón Einarsson í samtali við Morgunblaðið tveimur dögum eftir flóðið en hann var að vinna í frystihúsinu.

Bjargað eftir 20 tíma

Næstu daga á eftir var leitað að eftirlifendum. Tuttugu tímum eftir að flóðið féll bjargaðist Árni Þorsteinsson úr rústum frystihússins. Hann var sá síðasti sem fannst á lífi. Lík tveggja fundust aldrei.

„Alltaf heyrði ég annað veifið í mönnum, en ég var alltaf viss um að mér yrði bjargað. Ég var búinn að heyra í þeim í nokkra klukkutíma stanzlaust, þegar loksins birti til. Ég var sár feginn, þegar ég sá birtuna, enda var ég þá orðinn kaldur og dofinn," sagði Árni.

Norðfirðingar voru ekki bara slegnir vegna þeirra sem létust heldur því flóðin lögðu atvinnufyrirtæki þeirra í rúst.

Bæjarbúar lögðu strax áherslu á að aftur yrði ráðist í uppbyggingu atvinnuvega. Um miðjan janúar hófst vinna í niðurlagningastöð Síldarvinnslunnar og í hraðfrystistöðinni sléttum þremur mánuðum eftir flóðin.

Þann 20. febrúar 1974 féll einnig snjóflóð á bæinn Selsstaði í Seyðisfirði. Tveir bræður, 23ja og 9 ára lentu í flóðinu. Sá eldri slapp alveg en sá yngri var grafinn upp úr rústum fjárhúss.

Þau létust í snjóflóðunum:

Karl Lárus Waldorff, 47 ára, bifreiðastjóri.
Elsa Gísladóttir, 32 ára, húsfrú.
Þórstína Bjartmarsdóttir, 26 ára, húsfrú. Með henni fórust 2 börn hennar,
Ágúst Sveinbjörnsson, 8 ára.
Björn Hrannar Sigurðsson, 3 ára.
Einar Aðalsteinn Jónsson, 60 ára, vélstjóri.
Ólafur Eiríksson, 58 ára, vélstjóri.
Guðmundur Helgason, 61 árs, vélstjóri.
Stefán Sæmundsson, 52 ára, trésmíðameistari.
Högni Jónasson, 41 árs, skipstjóri.
Sveinn Davíðsson, bifreiðastjóri.
Ólafur Sigurðsson, 19 ára, ýtustjóri.

Heimildir og skjáskot: Tímarit.is

snjolflod alblad1snjolflod mogginn1snjolflod mogginn3snjolflod thvilji1snjolflod timinnsnjolflod visir1snjolflod mogginn2snjolflod visir2

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.