Grímsstaðir: Ljóst að áhugi Nubos dvínar eftir því sem verkefnið dregst

huang nubo 600pxStjórnarmenn GÁF ehf. óttast að áhugi kínverska kaupsýslumannsins Huang Nubos á að koma upp starfsemi á Grímsstöðum á Fjöllum eftir því sem verkefnið dregst á langinn. Skuldir félagsins, sem tvö austfirsk sveitarfélög eiga hlut í, námu níu milljónum króna í lok síðasta árs.

„Huang Nubo hefur lýst því yfir að hann vilji bíða niðurstöðu stjórnvalda varðandi breytt regluverk en ljóst er að áhugi hans fer dvínandi eftir því sem mál dragast á langinn," segir í fundargerð frá síðasta fundi stjórnar sem haldinn var um miðjan september. Svipaða bókun er að finna í fundargerð stjórnarinnar fyrir ári.

Árið 2012 bárust fréttir af áhuga Nubos á að kaupa Grímsstaði og byggja þar upp mikla ferðaþjónustu. Það reyndist hins vegar erfitt vegna laga um eignarétt og afnot fasteigna og síðan hefur lítið þokast í málinu.

Ekki unnið áfram með núgildandi lög

Til að vinna að framgangi þess var GÁF ehf. stofnað árið 2012 af sjö sveitarfélögum á Norður- og Austurlandi til að kaupa jörðina og leigja hana áfram til Zhongkun Grímsstaða ehf. sem er í eigu Beijing Zhongkun Investment Group, fasteignafélags Nubos.

Austfirsku sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Vopnafjarðarhreppur eiga 16% hvort, líkt og Akureyri og Norðurþing en Grýtubakkahreppur, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhreppur eiga 12% hvert. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, situr í stjórninni.

Í sumar skilaði  nefnd um endurskoðun laganna af sér skýrslu og er búist við að henni verði fylgt eftir af innanríkisráðherra á haustþingi. Í bókun stjórnar GÁF segir að í skýrslunni sé „ekkert sem komi í veg fyrir að hægt sé að halda áfram með verkefni félagsins." Ljóst er hins vegar að ekki verður tekin ákvörðun í málinu á grundvelli núgildandi laga.

GÁF treystir á að verkefnið gangi eftir

Samkvæmt ársreikningi GÁF fyrir árið 2013 er bókfært eigið fé þess neikvætt um 9,1 milljón króna. Stærstur hluti þess er frá stofnárinu en útgjöld félagsins hafa fyrst og fremst falist í vinnu atvinnuþróunarfélaga og aðkeypti sérfræðiþjónustu. Þá greiddi það um 400.000 í vexti í fyrra en um helmingur skuldanna er við lánastofnanir.

Í ársreikningnum segir að náist markmið um leigu jarðarinnar ætti það að duga til að greiða skuldir félagsins. Verði ekkert af verkefninu sé ljóst að félagið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar án þess að fá frekara fé frá eigendum sínum.

Keypti land í Noregi

Nubo komst nýverið í heimsfréttirnar fyrir landakaup sín í Noregi en hann keypti í sumar land við Tromsö í norðurhluta landsins og var sagður hafa augastað á landi á Svalbarða. Við Tromsö hyggst Nubo byggja upp ferðamannaaðstöðu.

Bandaríska stórblaðið New York Times fjallaði um málið og vitnaði í norskan dálkahöfund sem kallaði Nubo „lepp fyrir kínverska kommúnistaflokkinn." Seljandi landsins var því ósammála og kvaðst horfa á Nubo eins og hvern annan viðskiptajöfur.

Þá brá breska ríkisútvarpið upp nærmynd af honum í gær en þar er Nubo þar sem honum er líst sem ævintýramanni sem klífi Everest, safni sérstæðum dýrum og hafi unun af ljóðlist.

„Líf þitt verður leiðinlegt ef þú lifir bara fyrir peningana. Ég vil skora örlög mín á hólm," segir Nubo í viðtalinu þar sem hann rifjar upp æsku sína og hvernig hann hafi brotist áfram þrátt fyrir að kunna ekkert í rekstri þegar hann byrjaði.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.