Árni Páll: Má ekki vera undir dyntum fárra útgerða komið hvaða byggðir fá þrifist

samfylking klm apa seydis 03092014 0008 webFormaður Samfylkingarinnar segir að landsmenn verði að fara í samræður um það í hvaða átt fiskveiðistjórnunarkerfi landsins stefnir. Hann óttast að samþjöppun kvóta hafi alvarleg áhrif á byggðir landsins.

„Við þurfum að teikna sjávarútvegsmálin með nýjum hætti. Það hefur verið samstaða um kvótakerfið til að tryggja arðbæran sjávarútveg en við sem þjóð höfum þolað umtalsverða byggðaröskum sem hliðarþróun," sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á opnum stjórnmálafundi á Seyðisfirð á miðvikudagskvöld.

„Við sjáum glitta í þá hættu að sjávarútvegurinn geti þróast með meiri og hraðari samþjöppun en við höfum áður séð," sagði hann og nefndi sérstaklega aðgerðir Vísis sem í vor tilkynnti um fyrirhugaðar lokanir á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri.

Þótt dregið væri í land á Djúpavogi var öllu lokað á Húsavík. Sjötíu störf hurfu þar úr byggðarlaginu, álíka mörg og munu fást í fyrsta áfanga stóriðju á Bakka.

„Við þurfum að ræða með hvaða hætti fiskveiðistjórnunarkerfið eigi að þróast og hvaða mörk við eigum að setja því," sagði Árni Páll. Hann kvaðst hafa rætt við framkvæmdastjóra LÍÚ og fengið góðar undirtektir um nauðsyn þess að fara í fundaferð um landið um hlutverk sjávarútvegs í bygðaþróun.

„Það þarf hreinskipta umræðu um þessi mál og finna skurðpunkt milli byggðaþróunar og hagkvæmni. Við getum staðið frammi fyrir þeirri hættu að það verði bara sjö útgerðarfyrirtæki í landinu og undir þeirra dyntum komið hvaða staðir fái þrifist og hverjir ekki."

Á Seyðisfirði er eitt útgerðarfyrirtæki sem gerir út togara og í máli Kristjáns Möllers, þingmanns flokksins í kjördæminu, kom fram að veiðigjöld þess næmu alls um 70 milljónum króna.

Samkvæmt tölum frá Fiskistofu hefði það í fyrra greitt 29 milljónir í almennt veiðigjald, sem komið var á fyrir tíu árum og 42 milljónir í sértæk veiðigjöld. Inn í þá tölu er tekinn 20 milljóna króna afsláttur en útgerðir sem keyptu kvóta skömmu áður en gjaldið tók gildi árið 2012.

Kristján lýsti hins vegar áhyggjum sínum af því að afslátturinn virkaði ekki þar sem hans væri mest þörf. Útgerðir á Vestfjörðum voru taldar verst staddar en afslátturinn var mestur í Grindavík, 700 milljónir króna, þar sem Vísir er til húsa.

„Ég hef spurt og spurt hví það sé því ég óttast að þarna sé ekki um að ræða kvótakaup á Íslandsmiðum heldur sé verið að blanda inn mislukkaðri fjárfestingu í Kanada. Ég veit ekki hvort það sé rétt en vil fá umræðuna."

Kristján minnti ennfremur á að stærstur hluti veiðigjaldanna, 25%, kæmi úr Reykjavík. Árni Páll sagði því óþarfa hjá núverandi ríkisstjórn að stilla veiðileyfagjaldinu og fleiri málum upp sem baráttu milli landsbyggðar og borgar.

„Ég tel að núverandi stjórnarflokkar séu að leika ljótan leik með að stilla byggð og borg upp sem andstæðum og reki fylgisfólk í dreifbýlinu inn í réttir með að mála borgina illa upp."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.