Orkumálinn 2024

Þráinn Lárusson kaupir Valaskjálf : Hugmyndin er að færa Valaskjálf aftur til vegs og sóma

valaskjalf webEins og Austfirðingar hafa tekið eftir hefur Valaskjálf verið til sölu í þó nokkurn tíma. Loks er kominn kaupandi , en athafnamaðurinn Þráinn Lárusson festi kaup á húsinu í gær.

„Ég er ekki búinn að kaupa Valaskjálf þannig lagað, en þetta er satt. Við skulum segja að ég hafi komist að samkomulagi við Landsbankann sem við undirrituðum seinni partinn í gær“, segir Þráinn í samtali við Austurfrétt.

„Nú fer í hönd ofboðslega mikil vinna sem felst í því að fara í gegnum þetta hús og skoða hvað megi gera úr þessu, og hvort að hugmyndirnar sem ég hef með Valaskjálf gangi upp. Framhaldið byggist heilmikið á því. Það fer enginn út í svona fjárfestingar nema að fá tækifæri til að skoða þetta alveg ofan í kjölinn og meta hvort sú áætlun sem ég hef með þetta verkefni sé framkvæmanleg“.

Valaskjálf verður hótel

„Sko, mín hugmynd er sú að færa Valaskjálf aftur til vegs og sóma og reka þarna aftur í hótel sem bæjarbúar geta verið stoltir af að eiga. Mér hefur fundist alveg ömurlega dapurt að horfa upp á hvernig þetta er búið að vera allt of lengi.

Varðandi félagsheimilið, þá er hugmyndin að breyta salnum aftur í huggulegan og fallegan veislusal sem væri hugsaður sem samrekstur við hótelið. Þar fengi menning að blómstra, tónleikahald og fleiri skemmtilegar uppákomur. Þarna yrði líka fullkomin aðstaða fyrir fundi og ráðstefnur.

Ég er ekki að sjá að það verði mikið af dansleikjum, en þarna yrði kjörið að halda árshátíðir, veislur og fleira. Það er einmitt þetta sem ég sé, það er ekkert hótel á svæðinu sem bíður upp á almennilegan veislusal. Við þurfum svona sal.“ bætir Þráinn við.

En er kaupverð gefið upp? „Nei, kaupverðið er ekki gefið upp, en við skulum segja að ef allt gengur eftir mun ég borga aðeins meira en ég ætlaði“.

Mundum byrja á framkvæmdum fljótlega

„Það er auðvitað ekki orðið 100% ljóst hvort við munum ráðast í þetta verkefni að endurbyggja og endurvekja Valaskjálf sem hótel. En eins og staðan er í dag sé ég ekkert sem ætti að standa í vegi fyrir að svo verði. Ef ég sæi ekki gríðarlega miklar líkur á að þetta gangi allt saman eftir væri ég alls ekki að þessu.

Ef að allt fer eins og það á að fara fáum við afhent 1. október n.k og þá mundum við ráðast í framkvæmdir fljótlega eftir það. Fólk mun sjá breytingar mjög fljótt, en ég ætla samt sem áður að lýta á þetta sem 5 ára verkefni að koma Valaskjálf í það horf sem ég sé vil“.

Vonast eftir góðum viðtökum

„Ef að þessu verður þá vonast ég eftir að fá góðar viðtökur frá bæjarbúum um þetta verkefni. Það sér hver heilvita maður að þetta er ekki gert í gróðahugsun, alls ekki. Mér finnst Valaskjálf í núverandi ástandi vera lýti á bænum og að mínu mati þarf að laga og þetta. Ég horfi á þetta sem skref í þá átt að gera Egilsstaði að þeirri dásamlegu ferðaperlu sem bærinn getur verið. Það er svo ekkert launungamál að það er hagnaðarvon í hótelinu, það eru auðvitað sóknarfærið í þessu“, segir Þráinn að lokum.

Þráinn Lárusson á og rekur einnig Hótel Hallormsstað sem er stærsta hótelið á Austurlandi.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.