Borun hætt á Fjarðarheiði: Óheppni að borinn hitti á sprungu

bormenn fjardarheidi agust14 0008 webBormenn sem í sumar hafa safnað jarðsýnum af Fjarðarheiði eru hættir að bora. Borinn festist á um 420 metra dýpi. Það hefur ekki áhrif á framvindu mögulegra jarðganga undir heiðina þótt borinn hafi ekki komist jafn djúpt og vonast var eftir.

„Það endaði á að borinn festist og þá er allt stopp," segir Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar.

Byrjað var í lok júní að bora og var ætlunin að bora niður á 550 metra dýpi. Vel gekk niður á 380 metra dýpi en þá lenti borinn í sprungu og komst ekki nema 40 metra í viðbót þar til allt sat stopp.

Borinn stoppaði skammt ofan við möguleg jarðgöng en Gísli segir að það hafi engin áhrif á framhaldið.

„Það var bara óheppni að borinn hitti á sprunguna en lítið við því að gera. Það er alltaf vitað af sprungum svo menn taka alltaf ákveðna áhættu.

Holan gerir verulegt gagn þótt það sé ekki jafn mikið þar sem hún varð ekki jafn djúp og menn vonuðu."

Holan á háheiðinni var liður í að kortleggja berglagastaflann. Ekki er búið að fara yfir jarðsýnin en það verður gert nánar í vetur. Gísli segir að ekkert hafi enn komið mönnum á óvart.

Einnig eru gerðar yfirborðsrannsóknir sitt hvoru megin í heiðinni, einkum Seyðisfjarðarmegin og eru upplýsingar úr rannsóknunum tengdar saman til að reyna að gera sér grein fyrir hvernig berglögin liggja í heiðinni. „Borholurnar eru frekar til að skrásetja leiðina frekar en velja leiðina"

Ekki er von á að borað verði meira fyrr en ljóst verður hvort í jarðgöngin verður ráðist. Þá verður borað við báða gangaendanna en boranirnar eru töluvert kostnaðarsamar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.