Fljótsdælingar smala: Betra að gera þetta en gera ekki neitt

lombFljótsdælingar hyggjast halda til fjalla um helgina og smala fé af innstu svæðunum. Það flýtir fyrir ef rýma þarf svæðið ef eldgos hefst við norðanverðan Vatnajökul.

„Þetta sparar mönnum eins og einn dag ef það þarf að smala, hvenær sem það verður," segir Eyjólfur Ingvason, varafjallskilastjóri og bóndi á Melum.

Í dag er fyrirhugað að smala undir Fellum, á föstudag innstykki Múla og hluta Hraunasvæðis en við það verður lokið á laugardag. Á sunnudag verður smalað svokallað Kiðafell. Menn byrja með öðrum orðum nyrst og feta sig svo suður.

Eyjólfur segir bæði koma til greina að reka féð nær byggð eða setja það á bíla og fara með heim á tún.

„Það getur verið skynsamlegast að handsama það fé sem er lengst í burtu og keyra það heim á tún. Það sækir aftur á sömu slóðir aftur ef það er látið eiga sig utar," segir Eyjólfur.

Réttardagur er fyrirhugaður í Melarétt þann 20. september. Ekkert hefur enn verið ákveðið með framhaldið eða frekari smölun. Það ræðst af því hvað gerist við Vatnajökul, hvort það verði öskugos og í hvaða átt askan fýkur. „Það er betra að gera þetta en gera ekkert."

Eyjólfur er bjartsýnn á að vel gangi að manna göngurnar þótt aðdragandinn sé skammur. Búið sé að útdeila dagsverkum en hugsanlega þurfi að kaupa menn á ákveðin svæði.

„Þetta eru góðir dagar og ekki víst að þær vilji fara niður. Þess vegna getur verið gott að hafa fleiri menn en áætlunin gerir ráð fyrir en menn hjálpast að við þetta."

Eyjólfur segist ekki hafa heyrt hvað aðrir sauðfjárbændur á Austurlandi hyggist gera en Fljótsdælingar hafa tilkynnt um fyrirætlanir sínar. Bændur á Jökuldal smöluðu Brúardali síðastliðinn laugardag.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.