Bárðarbunga: Bændur klára heyskap og eru tilbúnir að smala

gunna hofteigi agust14Öskugos úr Bárðarbungu gæti haft gríðarleg áhrif á sauðfjárbændur á Austurlandi. Þeir keppast nú við að klára heyskap og þeir sem næst eru eldstöðinni undirbúa að smala fé sínu af hálendinu.

„Menn eru farnir að tala saman," segir Guðrún Agnarsdóttir, bóndi á Hofteigi á Jökuldal og formaður Félags sauðfjárbænda á Fljótsdalshéraði og Fjörðum, um undirbúning bænda fyrir mögulegt eldgos.

Hún var meðal þeirra sem sátu fund á vegum almannavarna á Egilsstöðum í morgun þar sem farið yfir viðbrögð við mögulegu eldgosi í Bárðabungu.

Askan úr gosinu er það sem alvarlegust áhrif gæti haft á Austurlandi en ef vindur stendur af jöklinum getur hún borist yfir svæðið.

„Hún getur eyðilagt allt sem er á túnunum. Menn drifu sig til nú í vikunni og reyndu að klára heyskapinn til að allt væri komið í plast og hægt að nota í fóður inni.

Það er líka búið að tala við þá aðila sem eru næstir svæðinu um hvort þeir vilji ekki fara að smala," segir Guðrún en til stendur að smala í Brúardölum um helgina og reka féð út í stóra hagagirðingu.

Verði öskufallið mikið gætu bændur neyðst til að hýsa fé sitt en það gæti reynst erfitt þar sem vart er til húsnæði fyrir bæði fullorðnar kindur og lömb.

Slíkt myndi skapa þrýsting á sláturleyfishafa að leyfa bændum að slátra fyrr en áætlað er. Aðalsláturstöð austfirskra sauðfjárbænda er á Húsavík en þaðan yrði fé af Norðurlandi, sem einnig er í hættu að fara. Eins þyrfti að hugsa aðrar leiðir ef vegsamband milli Norður- og Austurlands myndi rofna.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.