Vilja efla vitund um borgaraleg réttindi: Líkamsleitir líka niðurlægjandi fyrir þá saklausu

eva bjork karadottir 0008 webFélagar úr Snarrótinni – samtökum um borgaraleg réttindi hyggjast dreifa fræðsluefni um stjórnarskrárvarin réttindi einstaklinga á rokkhátíðinni Eistnaflugi um helgina. Réttindin snúa einkum að líkamsleit lögreglu sem félagar segja á gráu svæði. Austurfrétt ræddi við ritarann Björgvin Mýrdal og Norðfirðinginn Evu Björk Káradóttur um starfsemi samtakanna.

„Við höfum látið útbúa texta á nafnspjöld sem við dreifum með ákvæðum um hvað lögreglan má og hvað hún má ekki við líkamsleit," segir Eva Björk.

Textinn byggir á 71. grein stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Þar segir að ekki megi gera líkamsleit á manni nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Þessi réttindi má þó takmarka með sérstakri lagaheimild ef „brýna nauðsyn" beri til „vegna réttinda annarra."

Nokkur umræða hefur orðið um aðferðir lögreglu eftir tónlistarhátíðirnar Secret Solstice og Sónar. Á síðarnefndu hátíðina mættu lögreglumenn með fíkniefnahunda sem leituðu á gestum.

Björgvin segir að með þessu sé einn hópur tekinn fyrir. „Þessar aðferðir tíðkast ekki í öðrum málum. Hundarnir sjást ekki á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ungt fólk er tekið fyrir en fíkniefnaneysla er ekki bundin við einn aldurshóp. Hún finnst í öllum aldurshópum á öllum þjóðfélagsstigum."

Björgvin segir að aðgerðir lögreglu séu ekki til þess fallnar að hjálpa þeim sem eigi við fíknivanda að stríða.

„Við getum búið til dæmi af tvítugri manneskju sem er tekin með jónu og lendir því á sakaskrá í einhver ár. Hún fær ekki vinnu hjá hinu opinbera eða mörgum öðrum fyrirtækjum og má ekki ferðast til Bandaríkjanna. Fjársektir og sakaskráning hjálpa ekki ef þú átt við fíknivanda að stríða."

Snarrótin er almennt félag um borgaraleg réttindi en hefur í fyrstu einbeitt sér að umræðu um aðgerðir lögreglu gegn þeim sem neyta fíkniefna.

Björgvin og Eva segja markmiðið að efla gagnrýna umræðu. „Snarrótin er á móti allri vímuefnaneyslu ungmenna og hvers konar ofbeldi eða brotum á réttindum annars fólks," útskýrir Björgvin.

Félagar í samtökunum fylgdust með aðgerðum lögreglunnar á Secret Solstice. „Við viljum hafa eftirlit með eftirlitinu. Á þremur tímum sáum við 30 líkamsleitir þar sem ekkert fannst. Þótt ekkert finnist getur verið niðurlægjandi að standa með hendur út í loftið fyrir framan alla. Við erum ekki að blanda okkur inn í störf lögreglunnar en þeir sem neyta annarra vímuefna en ríkinu eru þóknanleg hafa sömu mannréttindi og aðrir."

Eva segist hafa gengið í samtökin því hún hafi verið ánægð með málefnalega baráttu. „Þetta snýst um að gera baráttuna fyrir borgaralegum réttindum sem sýnilegasta. Ég fylgdist með starfsemi Snarrótarinnar í um ár og var hrifinn af þeirri málefnalegu umræðu sem hún stóð fyrir með gögnum og skjölum en ekki fullyrðingum án rökstuðnings, sem er umræða sem hefur verið áberandi í landinu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.