Síldarvertíð lokið: Loðnan næst á dagskrá

Vopnafjörður

Skip flestra útgerða hafa nú klárað síldarkvóta sinn. Loðnuvertíðin er næst á dagskrá. Hjá HB Granda á Vopnafirði bera menn sig vel eftir síldarvertíðina.

Samkvæmt tölum Fiskistofu eru tæp 114 þúsund tonn af síld komin á land í austfirskum höfnum á þessu ári. Stærstum hluta aflans, 51 þúsund tonn, hefur verið landað í Neskaupstað, 23 þúsund tonnum á Vopnafirði, 20 þúsund tonnum á Höfn, 9.500 á Eskifirði, tæplega sjö þúsund á Reyðarfirði og tæplega þrjú þúsund á Fáskrúðsfirði.

Á vef Vopnafjarðarhrepps er haft eftir Magnús Þór Róbertssyni, vinnslustjóra HB Granda á staðnum að menn séu sáttir við síldarvertíðina. Fiskurinn hafi verið minni í ár en í fyrra en samt góður.

Loðnuveiðar eru þar næstar á dagskrá. Töluverður munur er á mannaflaþörf, einfaldara vinnsluferli loðnunnar þýðir að um helmingi færri starfsmenn þarf í hana miðað við síldina.

 

„Ætli við séum ekki með 18 til 20 manns í vinnslunni á móti um 40. Fastir starfsmenn félagsins eru fyrst og fremst í vinnu en þeir sem eru á hliðarlínunni fá einnig töluvert að gera af ýmsum ástæðum, að minnsta kosti í skemmri tíma.“

 

Skipin fara til loðnuveiða í þessari viku en sækja þarf fiskinn langleiðina til Grænlands.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.