Raforkumál: Ástandið hvergi verra á landinu

studlar landsnet 0005 webForstjóri Landsnets segist skilja að forsvarsmenn fyrirtækja á Austurlandi séu hugsi um framtíð rekstrarins vegna ótryggrar afhendingar á rafmagni. Illa hefur gengið að fylgja eftir hugmyndum um nýja byggðalínu en sú gamla er úr sér gengin.

„Ástandið er hvergi verra á landinu því miður og það hlýtur að vera erfitt að búa við þetta ástand," segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets.

Í samtali við Austurfrétt í morgun sagði Þröstur Jónsson, framkvæmdastjóri Rational Network að fyrirtæki á sviði hugbúnaðargerðar og þróun rafeindatækja á Austurlandi þyrftu að íhuga að flytja starfsemi sinnar vegna tíðra spennusveifla á rafmagni sem skemmi eða trufli nauðsynlegan búnað fyrirtækjanna.

Þórður segir byggðalínuna vera „löngu komna í þrot" og ástandið verði „bara verra á komandi árum" verði ekkert að gert.

„Ástæðan fyrir spennu- og tíðniflökti er einfaldlega sú að byggðalínan er rekin daglega nærri þanmörkum sínum. Verði truflanir á byggðalínunni ræður kerfið ekki við ástandið eins og það á að gera og þarf því að skipta því upp í aðskilin rekstrarsvæði við truflanir og í hvert sinn sem það gerist verða notendur varir við spennu- og tíðniflökt. Þetta hefur gerst tvisvar í þessari viku."

Hann segir Landsnet hafa reynt að styrkja flutningskerfið en ekki orðið ágengt. „Landsnet hefur hvergi komist áfram með framkvæmdir sínar síðustu 5 árin þrátt fyrir ítrekaðar tillögur um að mikilvægt sé að ráðast í framkvæmdir til að styrkja flutningskerfið.

Hugmyndir Landsnets síðustu árin hafa verið að styrkja Norður-Austurkerfið með lagningu háspennulína frá Blöndustöð og austur á Hérað og koma þannig á sterkri rafmagnseyju á Norður- Austursvæðinu og koma síðan í kjölfarið á tengingu norður-suður.

Blöndulína 3 hefur þegar farið í umhvermat og unnið verður að umhverfismati á Kröflulínu 3 og Sprengisandslínu í sumar.

Ef tillögur Landsnets hefðu fengið brautargengi á síðustu árum væri Landsnet nú þegar búið að fjárfesta milli 15-20 milljarða til styrkingar flutningskerfisins á Norður og Austurlandi.

Á því hefur borið á síðustu misserum að sveitarfélög eru jafnvel að taka línur út af skipulagi svo ekki hjálpar það við úrlausn málsins."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.