Afhending rafmagns: Þurfum annað með starfsemina ef þetta breytist ekki

throstur jonsson 0004 webIðn- og tæknifyrirtæki eiga erfitt uppdráttar á Austurlandi vegna mikils spennuflökts á rafmagni. Rafmagnsverkfræðingur segir þau vart eiga annarra kosta völ en að flytja sig um set batni afhendingaröryggi á rafmagni ekki.

„Þetta er spursmál um líf og dauða atvinnustarfsemi eins og okkar. Ef við sjáum ekki hilla undir aðgerðir mjög fljótlega fer þessi starfsemi einfaldlega eitthvað annað," segir Þröstur Jónsson, rafmagnsverkfræðingur.

Þröstur stýrir fyrirtækinu Rational Network sem þróað hefur búnað til að senda gögn eftir rafmagnslínum. Fyrirtækið er staðsett ásamt hugbúnaðarfyrirtækinu AXNorth og fleiri tæknifyrirtækjum í Hugvangi á Egilsstöðum.

Þar urðu skemmdir á vélbúnaði í síðustu viku eftir rafmagnsflökt. „Einn morguninn voru hér tvær tölvur og annar vélbúnaður frosinn vegna spennuhöggs og/eða tíðnisveiflu sem fór út fyrir það sem eðlilegt getur talist um nóttina.

Nánast alla daga skrækja hér varaaflgjafar vegna spennu- eða tíðnigæða sem fara langt út fyrir mörk. Vélbúnaður sem ekki er tengdur spennubreytum fær duglega á kjaftinn í hvert sinn."

Bæði fyrirtækin sinna fyrst og fremst verkefnum fyrir erlenda aðila. Næsta dag var einnig flökt á rafmagninu sem endaði með því að aðalnetbeinir hússins eyðilagðist. Til að laga hann þurfti nýjan beini og sérfræðing með honum úr Reykjavík til að setja hann upp.

Vinnustöðvun var þann dag á hæðinni sem bitnaði meðal annars á starfsemi Austurfréttar sem er til húsa í Hugvangi.

Þá hafa sérfræðingar frá Rational Network verið kallaðir út til að laga tölvukerfi annarra fyrirtækja á svæðinu sem farið hafa á hliðina vegna rafmagnssveiflna.

Þröstur segir tvo kosti í stöðunni fyrir fyrirtækin. Annað hvort að koma sér aflstöð og aftengjast íslenska raforkunetinu eða flytja starfsemina á öruggari stað.
„Rekstrarskilyrði okkar sem erum að reyna að reka fyrirtæki á sviði hugbúnaðargerðar og þróun rafeindatækja hér eru nánast ómöguleg við þessar aðstæður."

Hann segist vonast til að sveitarfélögin, fyrirtæki og aðrir hagsmunaðilar á Austurlandi beiti sér fyrir bættu afhendingaröryggi raforkunnar. „Við verðum að gera kröfur um úrbætur og er tilbúinn að leggja mitt af mörkum til að reka málið áfram ef gagn er í því."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.