Sigrún Blöndal: Átti frekar von á símtali um að meirihlutasamningurinn væri frágenginn

x14 heradslistiSigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, segir það hafa komið á óvart að heyra af því að Framsóknarflokkurinn hefði slitið meirihlutaviðræðum við Á-listann. Upp er komin ný staða sem meta þurfi í rólegheitum og finna bestu lendinguna.

„Já – þetta kom mér frekar á óvart. Þetta var búið að vera lengi í gangi þannig ég átti frekar von á símtali um að samningurinn væri frágenginn," segir Sigrún.

Framsóknarmenn sendu oddvitum annarra framboða í bæjarstjórninni í gærkvöldi tilboð um samstarf allra þar sem ekki yrði hefðbundinn meiri- eða minnihluti. Á-listinn ræddi einnig við Héraðslista og Sjálfstæðisflokkinn í gær og Sigrún staðfesti að Héraðslisti og Sjálfstæðismenn hefðu talað saman. „Nú hafa allir talað við alla."

Framsóknarmenn náðu þremur mönnum inn í bæjarstjórn en hin fengu tvo hvert. Gangi þessar viðræður ekki upp verður ekki myndaður tveggja flokka meirihluti án Framsóknarmanna. Hin framboðin þrjú gætu einnig tekið sig saman og skilið Framsóknarmenn eina eftir í minnihluta.

„Það er ekki búið að taka neina ákvörðun heldur verið að skoða stöðuna. Hún er ekki alveg einföld. Við verðum að skoða þetta í rólegheitum og sjá hvaða kostir eru skástir í stöðunni."

Sigrún segir að fyrsta skrefið verði að Héraðslistafólk tali saman og svo verði talað við hin framboðin. „Menn eru aðeins að þreifa hver á öðrum. Það er ekkert borðleggjandi í þessu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.