Meirihlutaviðræðum slitið á Héraði: Efast um heilindi Framsóknarmanna

ab meirihluti gj sbsÍ gærkvöldi slitnaði upp úr meirihlutaviðræðum Á-lista og Framsóknarmanna um áframhaldandi samstarf í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Oddviti Á-listans efast um að viðræðuaðilinn hafi verið heill í sannfæringu sinni í viðræðunum sem hófust strax að loknum kosningum.

„Það voru bara komnar fyrstu tölur þegar Stefán Bogi (Sveinsson) hringdi og bað um viðræður. Ég tók vel í það og var heill í því. Mér fannst meirihlutinn halda og samstarfið hafa verið farsælt á síðasta kjörtímabili," segir Gunnar Jónsson, oddviti Á-listans.

Viðræður stóðu yfir í tíu daga en að sögn Gunnars slitu Framsóknarmenn þeim í gærkvöldi. „Ég held að Stefán Bogi hafi ekki komið heill að þessum viðræðum. Hann vildi einhverja aðra leið."

Gunnar segir skipan í nefndir hafa verið ásteytingarsteininn. „Þeir settu ákveðin skilyrði um nefndir þegar þeir ræddu við okkur. Við féllumst á þau en þegar við lögðum til hverjir sætu í nefndunum, þar sem við lögðum til fólk á okkar lista, sættu þeir sig ekki við það."

Gunnar segir Framsóknarmenn hafa lagt til að öll framboðin í bæjarstjórn vinni saman en ekki verði eiginlegur minni- og meirihluti. „Það er útspil frá Stefáni Boga. Þeir ætla samt að ráða öllu, hafa lykilnefndirnar en hinir hafi eitthvað annað.

Þeir slitu ákveðið viðræðunum við okkur en vilja samt hafa aðgang að okkur. Það er ekki bæði hægt að halda og sleppa," segir Gunnar sem efast um að fyrirkomulagið gangi upp.

„Ég held að þetta sé vandmeðfarið. Hvernig ætla menn að leysa það þegar skerst í odda? Ég hefði viljað sjá meirihluta, hvernig sem hann væri myndaður, sem leitaði leiða til að ná samstöðu eins og sá síðasti."

Gunnar staðfestir að hann hafi rætt við fulltrúa bæði Sjálfstæðisflokks og Héraðslista í gærkvöldi en þeim viðræðum hafi ekki verið haldið áfram í dag.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.