Meirihlutaviðræður í Fjarðabyggð ganga vel

xd nesk mai14Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ræða saman um áframhaldandi meirihlutasamstarf í Fjarðabyggð. Oddviti Sjálfstæðismanna segir vilja kjósenda nokkuð skýran um að þeir styðji meirihlutann áfram.

„Við oddvitarnir hittumst í gær, ræðum við okkar fólk seinni partinn í dag og hittumst svo aftur eftir kvöldmat," segir Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðismanna.

Dagskráin er eins hjá Jóni Birni Hákonarsyni, oddvita Framsóknarmanna. „Við settumst niður í gær og áttum fínan fund þar sem við fórum yfir kosningabaráttuna og stefnuskrána."

Í samtali við Austurfrétt sagðist Jens Garðar um viðræðurnar myndu ganga vel. „Það eru engin teikn á lofti með stór ágreiningsefni."

Saman fengu flokkarnir 2/3 atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði smá fylgi sem skiptist á milli Framsóknarflokks og Fjarðalistans. Þá tapaði flokkurinn manni til Framsóknar.

„Þetta er engin dramatík í fylgisfærslu. Vilji kjósenda er alveg skýr. Það er ekki óánægja með ríkjandi meirihluta."

Jón Björn segir Framsóknarmenn í Fjarðabyggð „hæstánægða" með úrslit kosninganna. „Við rákum hófstilltari kosningabaráttu og hún virðist hafa fengið hljómgrunn. Við reyndum að samræma okkar markmið því sem við töldum sveitarfélagið ráða við."

Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans, segir Jón Björn hafa látið sig vita áður en viðræðurnar fóru af stað. Fjarðalistinn bíður því eftir hvað gerist í viðræðunum.

Elvar bendir á að kosningaúrslitin á laugardag hafi breytt hlutföllunum í bæjarstjórninni þannig að nú sé enginn stærri en annar og hægt að mynda þrenns konar meirihluta sem allir séu jafn stórir.

Bæði Elvar og Jens lýstu áhyggjum sínum af dræmri kjörsókn. Hún var minnst 55,6% á Fáskrúðsfiðri og 62-65% á Stöðvarfirði, Reyðarfirði og Eskifirði.

Elvar viðurkennir líka að það hafi verið „ákveðin vonbrigði" að Fjarðalistinn skyldi ekki ná fjórða bæjarfulltrúanum. „Við gerðum okkur vonir um meira eins og allir. Við bætum samt flestum atkvæðum við okkur."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.