Höfum ítrekað þurft að grípa til varna gegn ásælni nágrannanna

vilhjalmur jons sfk mai14Bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar segir höfuðverkefni bæjarstjórnarinnar á líðandi kjörtímabili hafa verið að standa vörð um fyrirtækin í bænum. Bæði hafi hún falist í að verjast niðurskurði og ásælni nágranna.

„Við höfum ítrekað þurft að grípa til varna gegn ásælni nágrannasveitarfélags í þá vinnu sem við höfum byggt upp af þrautseigju. Það er furðulegt að verða fyrir þessu af sveitarfélagi með svipaðan bakgrunn," sagði Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri Seyðisfjarðar og oddviti Framsóknarmanna á framboðsfundi í gær.

Hann sagði einstakt að „fulltrúar fari öndvert gegn eigin verkum" sem þeir hafi samþykkt á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA).

Málflutningur nágrannanna í suðri vekur undrun

Fulltrúar allra framboðanna þriggja í bænum töluðu fyrir samstöðu um Fjarðarheiðargöng upp í Hérað. Fulltrúar meirihlutans notuðu tækifærið til að gagnrýna nýsamþykktar ályktanir bæjarstjórnar Fjarðabyggðar þar sem áhersla er lögð á svokölluð Samgöng frekar en Fjarðarheiðargöngin.

„Það vekur undrun að horfa til málflutnings nágrannanna í suðri sem Seyðfirðingar hafa stytt um brýn verkefni þar umfram eigin þörf. Þeir fara gegn Seyðfirðingum þótt þeir munu ekki síður hagnast á framkvæmdunum í framtíðinni," sagði Vilhjálmur.

Hann sagði að í Fjarðabyggð ríkti ekki einhugur um málið og „sumir reynslumeiri" hefðu „tekið upp hanskann fyrir Seyðfirðinga í þeim."

Ekki riðið feitum hesti frá þessari aðför

Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjastjórnar og oddviti Sjálfstæðismanna tók í sama streng. „Okkur finnst þetta mjög sérkennileg afstaða hjá okkar nágrönnum, hvernig þeir hafa hegðað sér að undanförnu.

Við höfum reynt að halda uppi okkar rökum og baráttu á vettvangi SSA. Ég held að þeir hafi ekki riðið neitt feitum hesti frá þessari aðför, hvorki varðandi ferjuna né göngin og muni íhuga sína stöðu í framhaldinu."

Hún sagði forgangsverkefni nýrrar bæjarstjórnar að leggja áherslu á tímasetningu Fjarðarheiðarganga á samgönguáætlun. „Það eru 2-3 vikur í að rannsóknarboranir hefjist. Þá verður boruð 550 metra djúp hola í gegnum miðja heiðina og borað við munnastæðin til að staðsetja þá."

Hrepparígurinn stendur Austfirðingum fyrir þrifum

Frambjóðendur töluðu þó allir fyrir því að styðja áfram við samvinnu sveitarfélaga á Austurlandi. „Þessi hrepparígur sem ríður reglulega húsum í fjórðungnum stendur okkur fyrir þrifum," sagði Elfa Hlín Pétursdóttir, Seyðisfjarðarlistanum.

„Mig langar mest að gera fræðilega rannsókn á hvers vegna hann grasserar hér. Að fólk nái ekki að hugsa um hagsmuni heildarinnar.

Ég vil ekki vera sú sem er „helvítis Fjarðabyggð" en eftir síðustu vikur fer maður að hugsa svoleiðis. Ég þarf alveg að stoppa mig af. Það er eitthvað skringilegt í gangi þar."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.