Hugur íbúa til sameiningar kannaður í Breiðdal

ibuafundur bdalsvik mars14 0002 webTil stendur að gera skoðanakönnun samhliða sveitarstjórnarkosningunum á morgun, um hug Breiðdælinga til sameiningar við önnur sveitarfélög. Sveitarstjórinn segir könnunina aðeins vera til að gefa nýrri sveitarstjórn veganesti.

„Það er ekki verið að kjósa um sameiningarkosti heldur er þetta hugsað þannig að næsta sveitarstjórn hafi eitthvað veganesti, meðal annars hvort Breiðdælingar geti yfir höfuð hugsað sér að sameinast öðru sveitarfélagi," segir Páll Baldursson, fráfarandi sveitarstjóri.

Spurningarnar verða tvær. Annars vegar er já/nei spurning um hvort Breiðdælingar vilji sameinast öðru sveitarfélagi, hins vegar hvern þeir telji vænlegasta kostinn við sameiningu. Þar verður hægt að velja úr nágrannasveitarfélögunum Djúpavogshreppi, Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð auk þess sem auð lína verður fyrir þá sem vilja annan kost.

Páll segir að ekki verði lagt út í sérstaka kynningu á valkostunum. „Þetta er ekki sameiningarkosning heldur könnun. Þetta snýst ekki um sameiningarkosti. Við höfum til dæmis ekki spurt nágrannasveitarfélögin. Menn geta líka verið á móti sameiningu þótt þeir telji einn kost vænlegastan."

Fyrir ári lagði sveitarstjórnin fram bókun við umræðu um ársreikning þar sem sagði að „forsendur fyrir rekstri í óbreyttri mynd væru ekki fyrir hendi." Árið 2011 var rekstur sveitarfélagsins neikvæður um 40 milljónir og rúmar 25 milljónir árið 2012. Í fyrra var hann hins vegar jákvæður um 1,4 milljónir. Eigið fé samstæðu sveitarfélagsins er samt neikvætt um rúmar 57 milljónir króna.

Páll segir að farið hafi verið yfir fjármál sveitarfélagsins síðustu tvö ár. „Það hefur orðið mikill viðsnúningur á þeim tíma. Staðan í fyrra var mjög slæm og erfið. Í framhaldinu hittum við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Við höfum ráðist í ýmsar aðgerðir sem hafa hjálpað.

Við höfum farið í gegnum reksturinn í heild og reynt að finna hvar hægt væri að spara. Tekjurnar hafa líka aukist, það hefur verið aukin velta í samfélaginu meðal annars með auknum umsvifum í kringum höfnina."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.