Vilja Valaskjálf komið aftur til fyrri virðingar: Sláturhúsið er okkar menningarhús og það viljum við byggja upp

xa fherad x14Oddviti Á-listans á Fljótsdalshéraði vill að settar verði upp sýningar ætlaðar ferðamönnum í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Listinn vill eins að Valaskjálf verði miðstöð sviðslista á svæðinu. Önnur framboð styðja áframhaldandi uppbyggingu menningarstarfs í Sláturhúsinu.

Þetta kom fram í máli Gunnars Jónssonar á framboðsfundi á sunnudagskvöld. Þar lýsti hann þeirri sýn sinni að neðri hæðin verði nýtt í upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn enda sé húsið „dásamlega vel staðsett, nærri miðbænum."

Efri hæðin verði síðan nýtt undir Ormsstofu sem undirbúningur er hafinn að í samvinnu við Landsvirkjun. Fulltrúar fyrirtækisins hafa lýst yfir að Sláturhúsið komi vel til greina í þeim tilgangi.

„Það gæti orðið til þess að koma í veg fyrir að þetta yrði sérstakt menningarhús, hvað þá sviðslistahús. Það verður aldrei slíkt í mínum huga."

Á-listinn vill að sú miðstöð verði í Valaskjálf og það hús verði þannig „komið aftur til fyrri virðingar." Að þeirri vill Gunnar að fleiri komi að, til dæmis ferðaþjónustuaðilar þar sem hægt verði að skapa þar aðstöðu fyrir ráðstefnuhald.

Uppbygging í Sláturhúsinu ef peningar fást frá ríkinu

Anna Alexandersdóttir, Sjálfstæðisflokki, lýsti á móti vilja til að byggja upp sviðslistasal á efri hæð Sláturhússins ef samningar náist við ríkið um fjárstuðning.

„Sláturhúsið er okkar menningarhús og við viljum byggja það upp," sagði Sigrún Blöndal, Héraðslistanum.

Gunnhildur Ingvarsdóttir, Framsóknarflokki, sagði vilja til að halda áfram að byggja upp í Sláturhúsinu sé fjármagn til þess. Hún kom einnig inn á hugmyndir sem uppi hafa verið að ljúka við byggingu Safnahússins og bæta þar við aðstöðu til frekara menningarstarfs, fáist til þess fjármagn frá ríkinu.

„Sláturhúsið var keypt og við eigum það. Því teljum við rétt að reyna að halda áfram og klára það sem þarf að klára. Við tölum ekki um Sláturhúsið sem hefðbundið sviðslistahús því það er margt í nútímalist sem krefst ekki hefðbundins gamals sviðs eins og við þekkjum úr Valaskjálf.

Það fer mikil menningarstarfsemi fram í húsinu, þar eru til dæmis þó nokkrar vinnustofur, listamannaíbúð og svo var verið að flytja Þorpið þangað frá Vonarlandi."

Landsár fyrir hönd sveitarfélagsins

Umræða spannst einnig um hvort frambjóðendur vildu selja jarðir í eigu sveitarfélagins. Guðmundur Kröyer, Sjálfstæðisflokknum, lýsti yfir fullum stuðningi við það á meðan aðrir frambjóðendur voru meira efins.

Gunnar sagðist til dæmis „býsna landsár fyrir hönd sveitarfélagsins. Það er ekki sjálfgefið að selja jarðir bara til að selja þær. Ég vil sjá að við fáum einhverja aura að ráði. Land er fjársjóður til framtíðar. Við sjáum enn eftir því að hafa látið Eiðalandið frá okkur. Það er víti til að varast."

Sigrún Blöndal sagðist vera orðin „sár á land eins og Gunnar. Það er engin ástæða til að selja það fyrir slikki," sagði hún en lýsti yfir vilja til að skoða afnot af því.

Gunnhildur sagði framsóknarmenn ekki hafa neina sérstaka stefnu í málinu en hægt væri að skoða málin „ef menn eru tilbúnir að borga nógu svakalega mikið."

Ekki alltaf sáttur við flokkinn minn í Reykjavík

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknarmanna og forseti bæjarstjórnar, var spurður út í þá ákvörðun hans að greiða atkvæði gegn framkvæmdaleyfi lagningu fiskvegar um steinbogann í Jökulsá á Dal og hvort það hefði verið stefna Framsóknarflokksins.

Stefán Bogi svaraði að þetta hefði ekki verið stefna listans enda hann staðið einn að atkvæðinu. Hann hefði hins vegar viljað fá frekari upplýsingar áður en byrjað var á framkvæmdum á svæðinu, sem er á náttúruminjaskrá. „Mér fannst náttúran aðeins eiga að njóta vafans áður en beltagrafan kom."

Hann kom líka stuttlega inn á umræðu um framboð flokksins í Reykjavík. „Ég er og verð Framsóknarmaður eins og pabbi minn og afi og langafi því ég trúi á grunngildi flokksins. Ég er þó ekki alltaf sáttur við flokkinn á landsvísu og guð veit að ég er ekki alltaf sáttur við flokkinn minn í Reykjavík en ég hef alltaf verið sáttur við hann á Fljótsdalshéraði þar sem hann byggir á hópi fólks sem kemur saman til að gera samfélaginu gagn."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.