Orkumálinn 2024

Verðum að loka Hallormsstaðarskóla: Áhyggjur Sjálfstæðisflokksins af skuldamálum eru nýtilkomnar

xd fherad x2014Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Fljótsdalshéraði segja að ráðast verði í heildarskoðun á rekstri sveitarfélagsins með það fyrir augum að minnka skuldir þess. Þar verði ekkert undanskilið. Oddviti Framsóknarmanna segir áhuga flokksins á skuldunum nýtilkominn og sakar sjálfstæðismenn um að segja bara hálfa söguna.

„Sveitarfélagið okkar er í þröngri stöðu og skuldar mikið. Staðan var ekki björt í upphafi kjörtímabilsins og ljóst að ráðast þyrfti í víðtækar aðgerðir til að koma sveitarfélaginu úr þeim vanda sem það var komið í. Því eru mikil vonbrigði að ekki var farið í þær aðgerðir," sagði Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðismenn lögðu áherslu á aðgerðir í fræðslustofnunum sveitarfélagsins og sögðust vilja fara í „heildarendurskoðun á þeim."

„Það verður ekki sparað með óbreyttu fyrirkomulagi. Rekstrargrundvöllur Hallormsstaðarskóla er brostinn og því verðum við að taka það skref að loka þeim skóla," sagði Guðbjörg Björnsdóttir, sem skipar þriðja sæti listans og bætti við að mikilvægt væri að „vinna allar breytingar í sátt og samvinnu við samfélagið."

Vonbrigði að skuldir hafi ekki lækkað

Frambjóðendurnir bentu á að fræðslumál tækju til sín 55% af rekstrartekjum sveitarfélagsins og útgjöld til málaflokksins hefðu aukist um 80 milljónir á milli áranna 2012. Guðbjörg sagði að skoða þyrfti mál Fellaskóla, nemendur væru yfir 100 þar og húsnæðið sprungið. Bæta þyrfti nýtingu starfsfólks fræðslustofnana, 1% bæting gæti sparað 5-7 milljónir.

Anna sagði skuldir sveitarfélagins hafa verið rúmir sjö milljarðar í árslok 2013 þótt tekjurnar hefðu aukist um 500 milljónir á kjörtímabilinu. Hún lýsti því sem „vonbrigðum" að skuldirnar hefðu ekki lækkað „þrátt fyrir verulega tekjuaukningu."

Hún bætti jafnframt við að hjá sveitarfélaginu væru 250 stöðugildi og launakostnaður 47% af rekstrartekjum. „Það er ekki í boði að gera ekki neitt."

Samvinna um að færa fjármálin í betra horf

Ragnhildur Rós Indriðadóttir, Héraðslistanum, sagðist vilja hafa áfram samvinnu allra í bæjarstjórn um að „koma fjármálunum í betra horf." Listinn vildi sameina tónskólana í einn og skoða kosti og galla þess að sameina grunnskólanna í einn með nokkrum starfsstöðum.

Erlingur Hjörvar Guðjónsson, Endurreisninni, ítrekaði stefnu framboðsins um að ná skuldunum niður í 75% af tekjum en það væri „löng vegferð."

Gunnhildur Ingvarsdóttir, Framsóknarflokknum, benti á að leikskólarnir á Egilsstöðum hefðu verið sameinaðir á kjörtímabilinu. Aðspurð sagðist hún ekki hafa tölur um kostnað við sameininguna en hún væri nú farin að skila hagræðingu. Breytingarnar hefðu líka verið á faglegum forsendum.

Hallormsstaðarskóli hefði verið gerðir að deild í Egilsstaðaskóla og það fyrirkomulag yrði endurskoðað árlega. Um það hefði náðst „almenn sátt í skólasamfélaginu."

Getum nú borgað af skuldunum

Gunnar Jónsson, oddviti Á-lista sagði að festa í fjármálum yrði áfram aðaláherslan. Á kjörtímabilinu hefði tekist að taka til í rekstrinum án þess að skerða grunnþjónustuna. Hann þakkaði fyrir gott samstarf í bæjarstjórninni á kjörtímabilinu. „Það er annað en var á síðasta kjörtímabili enda skildum við illa við þar."

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknarmanna kallaði umræðu sjálfstæðismanna um skuldirnar „tiltölulega nýtilkomnar áhyggjur. Þær voru ekki áberandi fyrir fjórum árum, hvað þá 8-12 árum. Við getum borgað af skuldunum öfugt við það sem var fyrir fjórum árum. Skuldsetning er í lagi ef menn geta borgað af henni."

Líkt og fleiri sitjandi bæjarfulltrúar benti hann á að unnið væri eftir áætlunum um að ná skuldahlutfallinu niður í 150% af tekjum sveitarfélagsins árið 2019.

Tekjuaukningin af málefnum fatlaðra

Stefán Bogi sagði þær fyrirspurnir sem fram komu á fundinum flestar hverfast niður í eitt atriði sem væru fjármálin. Hann sakaði sjálfstæðismenn um að fara með hálfssannindi um fjármál sveitarfélagsins.

„Þegar menn slá fram fullyrðingum í ræðustól er mikilvægt að fram komi allar upplýsingar en ekki bara hálfar sögur. Það hefur komið fram að skuldir sveitarfélagsins hafa hækkað en það er því við réðumst í metnaðarfullt verkefni sem var bygging hjúkrunarheimilis. Hefðu menn viljað sleppa því? Nei – ég held ekki.

Menn tala um að skuldirnar hafi hækkað þrátt fyrir að tekjurnar hafi aukist um 500 milljónir. Þessar 500 milljónir skýrast af stærstum hluta af yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Því fylgdu tekjur en líka kostnaður og þetta er málaflokkur sem við verðum að sinna vel."

Hann kvaðst ánægður með starfsandann í bæjarstjórninni líkt og Gunnar en þeir hafa farið fyrir meirihlutanum. „Ég hef farið víða í kosningabaráttunni og hitt fólk. Mér finnst ég skynja skilning á stöðu sveitarfélagsins og ánægju með vinnu og vinnuanda bæjarstjórnar þar sem ekki er barist um á pólitískum banaspjótum til þess eins að gera það. Þeim vinnuanda vil ég halda."

Viðar Örn Hafsteinsson, Sjálfstæðisflokki, sem kom upp á eftir Stefáni Boga sagði: „500 milljóna tekjuaukning en skuldirnar hafa ekki lækkað. Hvað segir það okkur? Reksturinn þarfnaðist þessara 500 milljóna?"

Frambjóðendur virtust almennt sammála um að staða sveitarfélagsins leyfði ekki framkvæmdir. Þeir virtust annars sammála um forgangsröðunina sem samþykkt var inni í bæjarstjórn í vetur um að fyrst yrði ráðist í búnings- og starfsmannaaðstöðu í íþróttahúsinu, síðan fimleikasal og viðbyggingu við leikskólann í Fellabæ.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.