940 milljóna rekstrarhagnaður í Fjarðabyggð: Erum stolt af árangrinum

neskHraðar hefur gengið að greiða niður skuldir Fjarðabyggðar heldur en áætlað var. Uppgangstímar í atvinnulífi hafa nýst til þess og samstaða verið í bæjarstjórn um stærri atriði. Hagnaður af rekstri sveitarfélagsins nam tæpum 940 milljónum króna á síðasta ári.

„Við höfum nýtt góða tíma, meðal annars í sjávarútveginum, til að greiða skuldir hraðar niður en við áætluðum," sagði Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs við umræðu um ársreikning sveitarfélagsins fyrir skemmstu.

„Við erum stolt af árangrinum okkar sem við höfum öll komið að, sérstaklega í skuldum," sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar.

Elvar Jónsson, oddviti minnihluta Fjarðalistans minnti á að samstaða skipti máli til að ná slíkum árangri. „Það er ekki sjálfgefið að minnihlutinn skapi þennan stöðugleika sem þarf til að árangur sem þessi náist. Við höfum meðvitað reynt að skapa sátt um alla stóra þætti sem skipta máli í fjármálum bæjarins."

Rekstarhagnaður tvöfaldast

Niðurstaða á rekstri samstæðu sveitarfélagsins á árinu 2013 var jákvæð upp á 938 milljónir í fyrra sem er ríflega tvöföldun frá fyrra ári. Í skýringum með ársreikningnum segir að þrennt skýri jákvæðan rekstur.

Í fyrsta lagi hærri tekur með framlagi jöfnunarsjóðs, frá hafnarsjóði og sköttum. Í öðru lagi minni áhrif af verðlagsbreytingum út af minni verðbólgu og gengishagnaði. Í þriðja lagi jákvæð áhrif á fjármagnsliði og efnahag vegna 286 milljóna skuldarleiðréttingar á skuldbindingum við Íslandsbanka.

Bæjarstjórinn Páll Björgin Guðmundsson sagði að ekkert benti til annars en tekjugrunnur sveitarfélagsins ætti eftir að halda áfram að styrkjast eins og áætlað hefur verið. Áfram verði þó gætt aðhalds þar sem skuldsetning sé yfir viðmiðunarmörkum.

„Sterkur tekjugrunnur, sem byggður er meðal annars á sterkum atvinnugreinum í sjávarútvegi, áliðnaði og þjónustugreinum, gefur á hinn bóginn fyrirheit um kraftmikið samfélag til framtíðar litið."

Skuldaviðmiðið náð tveimur árum fyrr en áætlað var

Hrein fjármagnsgjöld námu 100 milljónum hjá samstæðunni samanborið við 482 milljónir árið á undan. Skammtímaskuldir nema 1,1 milljarði, þar af eru afborganir á næsta ári rúmar 500 milljónir. Langtímaskuldir eru 6,8 milljarðar. Skuldir lækkuðu um 1,1 milljarð á árinu, þar af langtímalán um rúmar 940 milljónir.

Skuldir voru 170% af tekjum en eiga ekki að vera meira en 150% samkvæmt reglum. Gert var ráð fyrir að markmiðið næðist árið 2018 en ef fram heldur sem horfir næst það tveimur árum fyrr. Skuldahlutfallið í lok árs 2012 var 198%.

1,3 milljarðar í veltufé frá rekstri

Rekstrarkostnaður sveitarfélagsins nam rúmum 3,7 milljörðum. Laun og tengd gjöld eru stærsti hluti hans, tæpir 2,2 milljarðar. Handbært fé var 670 milljónir í árslok en var 915 milljónir í ársbyrjun. Lækkunin skýrist aðallega af því að greiddar voru 200 milljónir aukalega af skuldbindingum á árinu.

Eignarhlutar í félögum nema 508 millj. kr. í árslok 2013. Þar af vega mest eignarhlutir í Lánasjóði sveitarfélaga 265 millj. kr. og í Sparisjóði Norðfjarðar 140 millj. kr.

Eigið fé í samstæðu er jákvætt um 1,8 milljarð og neikvætt í A-hluta um tæpar 200 milljónir. Í byrjun árs 2013 var eigið féð 530 milljónir og neikvætt um 833 milljónir í A-hluta.

Veltufé frá rekstri nemur tæpum 1,3 milljarði króna. Helstu fjárfestingar á árinu voru vegna hafnarmannvirkja, vatnsveitu, snjóflóða og ofanflóðavarna, gatnaframkvæmda og nýs hjúkrunarheimilis á Eskifirði.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.