Betra Sigtún: Framboð ungs fólks sem vill taka þátt í mótun samfélagsins

kari gautason 0008 webÁ Vopnafirði er verið að leggja lokahönd á nýtt framboð sem ber heitið Betra Sigtún. Kjarnann í kringum það myndar fólk á aldrinum 20-35 ára. Formaður framboðsfélagsins segir hópinn vilja gera samfélagið aðlaðandi til að ungt fólk flytji aftur heim.

„Sigtún er örgata á Vopnafirði með tveimur húsum. Hún er ómalbikuð, án ljósastaura og snjómoksturinn er eins og ekki sé um götu að ræða. Þeir sem fóru af stað með framboðið grínuðust með að aðalbaráttumálið ætti að vera að fá malbik og ljósastaura í götuna og þaðan spratt vinnuheitið."

Þetta segir Kári Gautason, formaður félagsins utan um framboðið. Verið er að klára listann en efsta sætið mun Stefán Grímur Rafnsson, íbúi í Sigtúni, skipa.

„Þetta er ungt fólk á aldrinum 20-35 ára hér í plássinu sem hefur áhuga á að taka þátt í mótun samfélagsins. Mat okkar er að auðveldara sé að komast á þann vettvang þar sem ákvarðanir eru teknar með að bjóða fram nýjan lista óháðan hefðbundnu flokkunum."

Kári segir ábyrga fjármálastjórnun vera eitt helsta áhersluatriði framboðsins en bætir við að rekstur sveitarfélagsins sé í góðu lagi um þessar mundir. Langtímaverkefnið er hins vegar að búa til umhverfi þannig að ungt fólk flytji aftur til Vopnafjarðar.

„Það er dálítill hópur á aldrinum 20-35 ára hér og hefur stækkað undanfarin 3-4 ár. Hér vantar hins vegar ungt fjölskyldufólk."

Hann ber saman Vopnafjörð og Þórshöfn en nokkuð af ungu fólki hefur flutt aftur til Þórshafnar enda er þar tryggari vinna yfir allt árið. Vopnafjörður virðist á móti vera að þróast yfir í vertíðarpláss.

Á sumrin og haustin komi til dæmis fólk á vertíð sem ekki sé með lögheimili í sveitarfélaginu sem þýðir að það skilur ekki eftir sig útsvarstekjur. Þá eru töluvert fleiri karlar á staðnum á þessum aldri heldur en konur.

„Í vetur var byggt fyrsta húsið í þorpinu frá árinu 1995 og það segir sitt, að tæplega 20 árgangar hafa bara farið í burtu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.