Andrés Skúla: Á ekki að vera í boði fyrir þingmenn að skila auðu í þessum málum

andres skulason cropForsvarsmenn Djúpavogshrepps vilja að þingmenn kjördæmisins og sjávarútvegsráðherra heimsæki staðinn og kynni sér aðstæður í ljósi þess að Vísir hyggst hætta bolfiskvinnslu á staðnum. Oddvitinn er óhress með mætingu þingmanna stjórnarflokkanna á fund með fulltrúum sveitarfélagsins í síðustu viku.

„Þessi fundur sem við áttum með þingmönnum kjördæmisins og stjórn SSA í síðustu viku var óneitanlega dálítið sérstakur," segir Andrés Skúlason, oddviti sveitarstjórnar Djúpavogshrepps sem sótti fundinn ásamt sveitarstjóranum Gauta Jóhannessyni og Sigurði Ágústi Jónssyni, sem situr í sveitarstjórn.

„Í fyrsta lagi gátum við ekki fengið þennan fund í heimabyggð vegna annríkis þingmanna og því keyrðum við í Egilsstaði til að auðvelda þingmönnum kjördæmisins að sækja fundinn.

Þegar við mættum svo til fundar stóðum við hinsvegar frammi fyrir því að aðeins fjórir af 10 þingmönnum kjördæmisins mættu til leiks og það sem meira var, aðeins einn af þessum fjórum var fulltrúi ríkisstjórnarflokkana."

Frá stjórnarandstöðu mættu því þrír af fjórum þingmönnum kjördæmisins og Steingrímur J. Sigfússon heimsótti Djúpavog fyrr um daginn og fundaði með sveitarstjórn og heimsótti Vísi. Andrés segir stjórnarflokkana því hafa „fallið á mætingu."

„Satt best að segja veit ég bara ekki hvað mér á að finnast um að fulltrúar ríkisstjórnarinnar í kjördæminu skuli ekki sýna sveitarfélaginu Djúpavogshreppi og málstað okkar meiri athygli og skilning undir þessum kringumstæðum. Þeir eiginlega dæma sig bara sjálfir."

Vonast eftir innspýtingu aflaheimilda

Andrés segir forsvarsmenn hreppsins hafa frá því Vísir tilkynnti um að fyrirtækið hygðist hætta bolfiskvinnslu á Djúpavogi fyrir mánuði hafa fundað með aðilum sem þeir hafi „talið að gætu breytt gangi mála" og sett fram „réttmætar kröfur að okkar mati í samræmi við umfang málsins."

Byggðastofnun er meðal þeirra aðila sem fundað hefur verið með. „Hún virðist vera með bæði með belti og axlabönd þegar kemur að úrræðum í þessum efnum og hefur því miður ennþá bara smáskammtalækningar upp á að bjóða. Vonandi fær stofnunin nú duglega innspýtingu aflaheimilda frá stjórnvöldum til að geta brugðist við þessum vanda."

Forsvarsmenn Vísis staðfestu fyrr í dag við Austurfrétt ákvörðunina um að loka vinnslunni.
Á sama tíma leita forsvarsmenn Djúpavogshrepps úrræða til að fylla upp í skarðið sem vinnsla fyrirtækisins skilur eftir sér.

„Við væntum þess stjórnvöld horfist í augu við vandann og taki á málum með lausnir sem duga fyrir okkur og taki þannig afstöðu með framtíð Djúpavogs" segir Andrés.

Andrés segist eftir fundinn að hafa þær væntingar að þingmenn taki málið upp á á Alþingi og það gerðu þeir í dag. Engin niðurstaða var þó úr þeim umræðum.

Málstaðnum haldið á lofti eins lengi og þarf

Hreppsnefnd Djúpavogs hefur ítrekað áskorun sína til þingmanna kjördæmisins um að koma á Djúpavog og vilja fá sjávarútvegsráðherra með.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara að fá skýr svör frá stjórnvöldum svo við getum upplýst íbúa um hvað er framundan. Það væri því gott að fá alla þingmenn kjördæmisins á sameiginlegan fund með sveitarstjórn og íbúum og nú bíðum við þess að fá svör við því.

Við lítum svo á að það skipti miklu máli að þingmenn fái tilfinningu fyrir stöðunni með því að mæta á svæðið og sjá með eigin augum hvað um er að ræða. Við viljum því ennþá trúa því að stjórnarþingmenn kjördæmisins og sjávarútvegsráðherra mæti til fundar á Djúpavogi og sýni okkur úr hverju þeir eru gerðir við aðstæður sem þessar.

Það á ekki að vera í boði að skila auðu í málum af þessu tagi af hálfu þingmanna. Við munum halda málstað okkar á lofti áfram eins lengi og þurfa þykir gagnvart stjórnvöldum sérstaklega nú síðustu daga þingsins."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.