Austurbrú: Jóna Árný framkvæmdastjóri í stað Karls Sölva

austurbru sjalfbaerni 0009 webStjórn Austurbrúar ses. og Karl S. Guðmundsson framkvæmdastjóri hafa gert með sér samkomulag um starfslok. Jóna Árný Þórðardóttur hefur verið ráðin til að gegna starfi framkvæmdastjóra stofnunarinnar tímabundið næstu mánuði.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Austurbrú sem send var út í kjölfar stjórnarfundar og starfsmannafundar sem haldnir voru í gær. Samkvæmt samkomulaginu mun Karl, sem hefur verið framkvæmdastjóri Austurbrúar frá því í árslok 2012, láta af öllum daglegum stjórnunarstörfum nú þegar en sinna völdum verkefnum fyrir og með stjórn á næstu vikum.

Jóna Árný er viðskiptafræðingur, löggiltur endurskoðandi og ráðgjafi hjá Gagnráðum ehf. Hún hefur setið sem fulltrúi í starfsháttanefnd Austurbrúar og í stjórn Vaxtarsamnings Austurlands. Henni er ætlað að fara með framkvæmdastjórn stofnunarinnar næstu mánuði, eða fram að framhaldsársfundi Austurbrúar sem fyrirhugað er að halda fyrir lok september.

Á næstu mánuðum mun stjórn og starfsháttanefnd stofnunarinnar, með aðkomu starfsmanna, meta hvernig starfsemi Austurbrúar hefur gengið, endurskoða stjórnskipulag stofnunarinnar eftir þörfum og gera tillögur um æskilegar breytingar. Starfslok núverandi framkvæmdastjóra eru liður í þessum breytingum.

Ársfundur Austurbrúar ses. verður haldinn 9. maí nk. en ráðgert er að fresta hluta hefðbundinna ársfundarstarfa til framhaldsársfundar í haust. Á þeim fundi munu breytingatillögur liggja fyrir ásamt stefnu stofnunarinnar til næstu ára.

Mynd: Úr myndasafni GG

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.