„Engin ný tíðindi fyrir okkur Austfirðinga að þurfa að eiga við náttúruverndarsinna"

jens gardar helgason mai12Bæjarfulltrúar í Fjarðabyggð telja nauðsynlegt að tryggja afhendingu raforku í sveitarfélaginu. Aukakostnaður þar sem kynda hefur þurft í Neskaupstað með olíu í mars og apríl nemur milljónum króna. Formaður bæjarráðs segir svarið vera að leggja nýja byggðarlínu yfir Sprengisand.

„Það að fá orku er lífsspursmál fyrir fyrirtæki og stofnanir. Við þurfum að halda áfram að berjast fyrir því að tryggði verði afhending á orku hingað austur á land og það gerist ekki nema við fáum línuna yfir Sprengisand. Ég trúi ekki öðru en um það sé þverpólitísk samstaða hér í bæjarstjórninni," sagði Jens Garðar Helgason, forseti bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðismanna, á bæjarstjórnarfundi fyrir skemmstu.

Eins og Austurfrétt greindi frá fyrir helgi nemur aukinn kostnaður stofnana og fyrirtækja í Neskaupstað vegna raforkuskerðingar um 15 milljónum króna. Vegna lágrar vatnsstöðu í miðlunarlónum varð Landsvirkjun að skerða orkusölu og rafmagn var í auknu mæli flutt frá Kárahnjúkum á önnur landssvæði til að anna eftirspurn.

Landsnet segir yfirlestaða og úrelta byggðalínu koma í veg fyrir að hægt sé að flytja aukna orkur til Austurlands og hefur kynnt hugmyndir um nýja línu sem fari yfir Sprengisand. Ekki er einhugur um línuna enda verður þar rask á ósnortnu landi auk þess sem loftlínur valda sjónmengun.

„Það eru engin ný tíðindi fyrir okkur Austfirðinga að þurfa að eiga við náttúruverndarsinna. Við erum komin með ákveðinn hóp, svo sem Hagkaupsbörnin og Björk, sem berjast gegn framkvæmdum eins og þessum og fleiri virkjunum," sagði Jens Garðar á fundinum.

Hann kvaðst ekki sjá aðra kosti í stöðunni heldur en línuna yfir Sprengisand. „Ekki nema að bændur í Skagafirði gefi sig og hleypi línunni yfir þeirra lönd. Nógu langan tíma hefur það tekið. Það hefur verið stopp í mörg, mörg ár," sagði Jens.

Á fundi landeigenda á fyrirhugaðri Blöndulínu 3, sem haldinn var í Skagafirði á laugardag var lýst yfir stuðningi við verndun hálendisins og loftlínu um Sprengisand mótmælt. Þeir ítrekuðu þar kröfur sínar um að metið verði „á hlutlausan hátt" möguleikar á að leggja Blöndulínu með jarðstreng.

Jens Garðar virðist ekki taka undir áhyggjur af skaðsemi loftlínanna. „Loftlínurnar eru algjörlega afturkræfar. Jarðlínan velur meira raski til lengri tíma litið og er margfalt dýrari.

Við Austfirðingar og þeir sem eiga hagsmuna af því að selja okkur rafmagn og fleiri þurfum að skipuleggja okkur betur og vera samstíga. Þetta er algjörlega lífsnauðsynlegt fyrir okkur þegar við erum að markaðssetja svæðið að við getum markaðssett það sem svæði með örugga orku."

Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans sem er í minnihluta, hvatti Jens Garðar til að tala varlega um náttúruverndarsinna. „Við getum eflaust talið okkur náttúruverndarsinna þótt formaður bæjarráðs talaði eins og hann væri einmitt ekki í þeim hópi. Það er óþarfi að tala illa um náttúruverndarsinna enda er þetta stór og breiður hópur."

Hann deilir þó áhyggjum Jens af orkunni. „Það er óásættanlegt að fleiri hundruð þúsund eða milljónir fari umfram það sem áætlað er í orkumál hjá stofnunum í sveitarfélaginu. Það verður minna eftir til að sinna þjónustunni sem þeim er ætlað að sinna. Þetta er mikið högg fyrir stofnanirnar, sama hver rekur þær."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.