Milljónir í aukinn orkukostnað vegna skerðingar á orku

nesk jan12 webAukinn kostnaður fyrirtækja og stofnana í Neskaupstað vegna skerðingar á jafnorku hleypur á milljónum króna. Hækkun gjaldskrár er 150% þar sem kynda þarf með olíu í stað rafmagns.

Í lok febrúar tilkynnti Landsvirkjun að skerða yrði afhendingu á jafnorku til húshitunar vegna bágrar vatnsstöðu í miðlunarlónum á Suður- og Norðurlandi. Skerðingin hófst strax 1. mars og reiknað er með að hún standi út apríl.

„Ég var að fá reikning fyrir mars og þar er orkukostnaðurinn orðinn 150% hærri vegna þessa og von á því að það verði það sama í apríl. Mjög íþyngjandi," segir Elvar Jónsson, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands en skólinn er meðal þeirra stofnana sem bera aukinn kostnað út af þessari ráðstöfun.

Í Neskaupstað er hitað upp með fjarvarmaveitu alla jafna er kynt með rafmagni en þegar það er skert þarf að nota olíu. Kílóvattsstundin hækkar því úr sjö krónum í sautján.

Í minnisblaði mannvirkjastjóra Fjarðabyggðar kemur fram að aukakostnaðurinn nemi rúmlega 14,5 milljónum króna.

Hann lendir á Fjórðungssjúkrahúsinu, verkmenntaskólanum, Egilsbúð, sundlauginni og íþróttahúsinu, Breiðabliki, Nesskóla, safnahúsinu og slökkvistöðinni.

Í minnisblaðinu kemur fram að aukakostnaður Verkmenntaskólans sé um tvær milljónir og sjúkrahússins 2,5.

„Þetta er tæplega 150% hækkun, sem munar vissulega um, því rafmagns og húshitunarkostnaður var hár fyrir," segir Valdimar O. Hermannsson, rekstrarstjóri fjórðungssjúkrahússins.

Hann segir FSN hafa lent þrisvar í orkuskerðingu í fyrra, þó ekki jafn mikilli hækkun og nú. Þá hafi viðbótarkostnaðinum verið skipt niður á lengra tímabil til að jafna það út.

Mesti viðbótarkostnaðurinn er hins vegar við sundlaugina í Neskaupstað eða 6,4 milljónir króna. Þar hafa menn leitað leiða til að spara heitt vatn, svo sem lækka hitastig potta og lauga og brýna fyrir sundlaugargestum að spara vatn.

Í minnisblaði mannvirkjastjórans er einnig tekið fram að skoða verði leiðir til að skerðing jafnorku hafi ekki jafn slæm áhrif á orkukaup fjarvarmaveitunnar í framtíðinni.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.